fimmtudagur, maí 05, 2016

5. maí 2016 - Guðni Thorlacius Jóhannesson




Ég viðurkenni fúslega að ég hefi aldrei verið hrifin af pólitískum forseta Íslands og skiptir þá engu hvort um er að ræða forseta sem kemur beint úr flokkspólitísku vafstri eða með ákveðin sjónarmið í huga, t.d. í náttúruvernd eða iðnaðarstefnu. Því féllu Kristján heitinn Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir ágætlega að hugmyndum mínum að forseta sem sameinar íslensku þjóðina, en sundrar henni ekki.

Í forsetakosningunum 1996 greiddi ég atkvæði með lækni sem vissulega hafði verið á Alþingi sem fulltrúi hugmynda um jafnrétti fremur en pólitískrar stefnu, en lengra finnst mér erfitt að ganga. Forseti Íslands á að geta sameinað þjóðina. Við eigum að geta horft upp til hans eða hennar sem fyrirmyndar fyrir okkur hin.

Á nýju ári í ársbyrjun 2016 og fráfarandi forseti hafði tilkynnt að hann ætlaði að hætta komu fyrst upp í hugann tvær konur sem ég hefði getað hugsað mér í embættið. Ragna Árnadóttir hafði vissulega verið ráðherra en skipuð í embættið vegna faglegrar þekkingar en ekki stjórnmálaskoðana sem ég veit ekki hverjar eru. Hin var Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands sem ég hafði einnig kynnst lítillega en báðar konur sem ég ber mikla virðingu fyrir. Hvorug þeirra gaf kost á sér til framboðs.

þegar allt sauð uppúr í íslensku samfélagi 4. apríl síðastliðinn var kallaður til sögunnar Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og ræddi hann í sjónvarpi á skemmtilegan og fræðandi hátt um embættisverk forseta Íslands, skyldur hans og embættisverk. Ég hafði verið á kynningu hans á bókinni Hrunið þegar hún kom út og þar sem Guðni sagði frá hruninu á alþýðumáli á sama fjörlega hátt og í sjónvarpinu 4. apríl síðastliðinn og þarna sá ég fyrir mér mann sem gæti orðið verðugur forseti. Ekki var verra að ég hafði lítillega kynnst afa hans, Guðna Thorlacius skipherra sem lengst var skipherra á vitaskipinu Árvakri og áður á Hermóði og lét aldrei bugast þrátt fyrir mikið mótlæti í seinni heimsstyrjöld þar sem hann var saklaus pyntaður til sagna í bresku herfangelsi við Kirkjusand í Reykjavík vegna stöðu sinnar sem stýrimaður á flutningaskipinu Arctic, hinn ágætasti maður en Guðni eldri lést árið 1975 þá einungis
67 ára að aldri.

Þann 4. apríl ákvað ég að taka þátt í hópi þeirra sem hvöttu Guðna Th. til forsetaframboðs. Á fundi á uppstigningadag, að sögn fróðra aðila á afmælisdegi eiginkonu sinnar, tilkynnti hann framboð sitt til embættis forseta Íslands og hann talaði ekki í neinum getgátum heldur kom sér beint að efninu eins og hans er von og vísa á góðri og kjarnyrtri íslensku.

Er Guðni flutti ávarp sitt og hvatti til heiðarlegrar kosningabaráttu fór ég að hugsa til Kristjáns Eldjárn. Þetta var eins og í hans anda sem og í anda Guðna heitins Thorlacius skipherra, eða eins og Guðni sagði sjálfur í framboðsræðunni, "forseti þarf að standa við orð sín og hafa ekkert að fela".
Ég mun að sjálfsögðu styðja framboð Guðna af fremsta megni en mun sjálf reyna eins og mér er unnt, fara að ráðum Guðna og hvetja til stuðnings honum af heiðarleika og jákvæðni og án þess að hnýta í aðra frambjóðendur og forðast að fara í skotgrafirnar.

Á undanförnum dögum hefi ég bæði heyrt Guðna kallaðan komma og íhald. Staðreyndin er samt sú að hann hefur ávallt forðast að tileinka sér pólitískar stefnur og ekki tekið þátt í pólitísku starfi svo mér sé kunnugt. Svona mann eiga allir Íslendingar að geta sameinast um.

Með jákvæðni að leiðarljósi tekst að finna Guðna Th. Jóhannessyni stað á Bessastöðum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli