föstudagur, september 30, 2011

1. október 2011 - Um Alþingi Íslendinga

Meðal virtustu alþingismanna Íslands var Gils Guðmundsson fæddur á gamlársdag 1914 og látinn 29. apríl 2005. Ég man að einhverju sinni er hann bar á góma hélt einhver því fram að hann væri latur samanber hve sjaldan hann fór í pontu á þingfundum. Ég mótmælti þeim sem hélt þessu fram, því vitað var að Gils var einn alduglegasti þingmaður sem Ísland hafði átt, hann var mjög virkur í öllum nefndastörfum og þekktur fyrir að kynna sér öll mál í þaula áður en hann tjáði sig um þau. Þetta var honum í blóð borið, enda fæddur og uppalinn Vestfirðingur og sönn steingeit að auki, þótt hann væri alþingismaður fyrir Reykjaneskjördæmi.  Ævi hans bar líka öll merki mikils dugnaðar og þekkingar á grunnþörfum íslensku þjóðarinnar, heilu doðrantarnir skrifaðir um íslenskan sjávarútveg frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á þennan dag, ritstjóri sjómannablaðsins Víkings í samvinnu við Gissur Ó. Erlingsson loftskeytamann og þýðanda (sem enn lifir 102 ára) í tæpan áratug, ritstjóri fyrstu bókanna um Aldirnar og höfundur fjölda annarra rita. Að auki var hann kennari og alþingismaður í tæpa tvo áratugi og friðarsinni af áhuga.

Ástæða þess að ég rifja upp minningu Gils Guðmundssonar er einfaldlega sú að hann var Alþingi til mikils sóma og dæmigerður fyrir marga alþingismenn sem vinna vel og skila sínu dagsverki, ekki aðeins eins og margir alþingismenn gerðu áður fyrr, heldur einnig í dag því þrátt fyrir nokkra gasprara á Alþingi vinnur meirihluti alþingismanna vinnuna sína möglunarlaust og leggur sig fram um að skila góðu verki.

Á undanförnum árum hefur borið mjög á málþófi í ýmsum málum á Alþingi sem hefur vissulega verið þinginu til vansa og þar ætla ég ekki að draga neinn einstakan flokk til ábyrgðar, þingmenn flestra flokka hafa gert sig seka um slíkt og reyndar náð fram breytingum á frumvörpum eftir margra daga málþóf, en það er engu að síður ákaflega neikvæður þáttur í starfi Alþingis, ekki síst eftir að hægt var að fylgjast með fundum Alþingis í beinni útsendingu sem er vissulega vel, en skapar um leið aðstöðu fyrir Morfísglaða unga alþingismenn til að láta ljós sitt skína.

Í dag verður Alþingi sett. Fjöldi fólks ætlar að mæta á Austurvöll og mótmæla, margir án þess að geta sagt hverju á að mótmæla, aðrir til að mótmæla ríkisstjórninni sem þeim finnst ekki hafa staðið sig. Aðrir til að kalla til menn á Alþingi sem eru búnir að koma íslensku þjóðinni á hausinn og eru sjálfir komnir í öruggt skjól fjarri pólitík.  Sjálf viðurkenni ég alveg að hafa tekið þátt í mótmælum við Alþingishúsið, t.d. haustið 2008 sem og í janúar 2009 þegar búsáhaldabyltingin náði hámarki sínu, en ég nenni ekki að mæta til að mótmæla ríkisstjórn sem er að vinna vinnuna sína án þess að hafa nokkurt fjármagn til að framkvæma allt sem þyrfti að framkvæma, því rétt eins og Albert Guðmundsson benti á í sífellu er hann var fjármálaráðherra, það eru ekki til neinir peningar! Steingrímur Jóhann mætti gjarnan einnig benda á hið sama er hann er að svara fyrir niðurskurð og höfnun á réttmætum kröfum fólks. Ég er ekki heldur alltaf sammála Jóhönnu Sigurðardóttur þótt ég styðji hana heilshugar í starfi sínu sem forsætisráðherra, en bæði eiga þau þakkir mínar skildar fyrir mikið og óeigingjarnt starf í ríkisstjórn við verstu aðstæður sem hugsast getur.

Jóhanna og Steingrímur hafa vissulega fengið marga ákúruna fyrir störf sín. En hvað er hægt að gera til að breyta þessu? Það má setja seðlaprentunina í gang og lina augnabliksþjáninguna með því að dæla fölsku fjármagni út í hagkerfið, en slíkt leiðir einungis af sér aukna verðbólgu sem veldur tapi fyrir alla á endanum. Á ég virkilega að ganga á torg og mótmæla góðum störfum þeirra? Af hverju?

Sumir kvarta yfir fjölda alþingismanna og háum launum þeirra. Ég ætla ekki að tjá mig um fjölda þeirra, hinsvegar get ég vel sett mig inn í kjör þeirra. Þingfararkaupið er 520.000 krónur á mánuði. Það er aðeins lægra en meðaltals heildarlaun lögregluþjóna eftir hækkunina sem fékkst með dómi gerðardóms miðað við launin 2010 með hækkun. Þetta eru ekki há laun og margir launamenn með verulega hærri laun. Það koma vissulega aukagreiðslur á launin, búsetustyrkur fyrir landsbyggðarþingmenn og frír sími auk ýmissa álagsgreiðslna. Ég er svosem ekki inni á gafli hjá neinum þingmönnum í dag, en rifja upp í huganum fyrstu ár Margrétar vinkonu minnar Frímannsdóttur á Alþingi og síminn hringdi hjá henni án afláts nánast allan sólarhringinn þá sjaldan hún kom heim af Alþingi.

Í dag verður Alþingi sett, væntanlega undir mótmælum og eggjakasti. Ég ætla ekki að taka þátt í því. Ég mun hinsvegar hugsa hlýlega til allra alþingismanna, líka pólitískra andstæðinga og óska þeim velfarnaðar á vetri komanda, en um leið óska ég þess að allir alþingismenn láti af málþófi um alla framtíð og tryggi að slíkt þurfi ekki að endurtaka sig framar með bætt traust á Alþingi sem eðlilegt framhald.  

1 ummæli:

  1. Sæl og takk fyrir góðan pistil Anna.Við vorum nú FB.vinir,en þú hefur greinilega "hreinsað til "eins og við gerum stundum öll :) Langar samt mest til að segja þér,að ég er handviss um að þú yrðir þjóðinni til mikils sóma á Alþingi Íslendinga,og ynnir þín störf af hugsjón,eins og hann Gils Guðmundsson gerði,blessuð sé minning hans. Þeir voru ýkja margir á árum áður,sem unnu sitt starf á Alþingi Íslendinga af mikilli hugsjón. Við eigum nokkra þar einnig núna,en gott væri að hafa manneskju eins og þig,vel gefna,húmorinn í góðu lagi,lífsreynd og að ég tel mjög heiðarleg. Svo að þetta er draumurinn minn. Og fyrst þú minntist á hana Margréti Frímannsdóttur,þá dái ég þá konu mjög,en öfunda hana ekki beint af starfinu hennar.Hún ræður nú samt alveg við þsð.þsð best ég veit. Góða nótt.Ásta Erna Oddgeirsdóttir

    SvaraEyða