mánudagur, september 26, 2011

26. september 2011 - Um dauðarefsingar


Á dögunum var maður einn að nafni Troy Davis tekinn af lífi vestur í Bandaríkjunum. Aftökunni hafði verið mótmælt um allan heim, ekki einvörðungu vegna andstöðu við dauðarefsingar, heldur einnig vegna þess hve mikill vafi lék á um sekt mannsins og má velta því fyrir sér hvort ekki var um dómsmorð að ræða. Troy Davis neitaði alla tíð að hafa myrt lögreglumann fyrir um tveimur áratugum og hans síðustu orð voru á sömu leið, að hann væri saklaus af morðinu. Samt var hann tekinn af lífi eða einfaldlega myrtur af yfirvöldum. Daginn sem hann var tekinn af lífi tók ég þátt í mótmælastöðu við bandaríska sendiráðið í Reykjavík í þeirri veiku von að lífi troy Davis yrði þyrmt

Ástæða þess að ég rifja upp þennan sorgaratburð hér er að eftir að ég nefndi þessa aftöku á Facebook urðu fleiri manns til að mæla með dauðarefsingum, t.d. ef morð eru sérlega ógeðsleg, barnamorð og nauðganir, fjöldamorð og þess háttar, að slíkir menn eigi ekki rétt á því að lifa lengur og séu best teknir af lífi. Þá hafa menn nefnt aftökur fólks á borð við Saddam Hussein sem manns sem átti ekki skilið að lifa. Sjálf sé ég enga slíka undantekningu sem réttlætir dauðadóm og aftöku og bendi á að í ríkjum þar sem dauðarefsingar eru enn við lífi eru einnig til undantekningar.

Einn illræmdasti og ógeðfelldasti morðingi bandarískrar réttarsögu hét Ed Gein. Hann lést á sóttarsæng árið 1984, 77 ára gamall. Ógeðfelld saga Ed Gein varð kveikjan að nokkrum verstu hryllingsmyndum sem gerðar hafa verið í Hollywood, myndum á borð við Psycho, The Texas Chain Saw Massacre, Leatherface og The Silence of the Lambs. Hann var einungis sakfelldur fyrir tvö morð en talið að hann hafi myrt að minnsta kosti sex manns, var talinn náriðill og skreytti heimili sitt með líkamspörtum. Þegar hann var handtekinn árið 1957 var ljóst að hann var alvarlega geðveikur og því lokaður inni á geðveikrahæli til æviloka, því maður tekur ekki geðsjúkling af lífi og hið sama gilti um Bandaríkin á sjötta áratugnum. Eitthvað hefur siðferðið breyst eftir þetta, því í dag eru til fjöldi dæma um að unglingar og fólk sem mjög skertan þroska eða vitsmuni enda lífið á dauðadeild bandarískra fangelsa

Þeir aðilar sem mæltu með dauðarefsingum gerðu ekki ráð fyrir því að ógeðfelldustu morðin mætti rekja til alvarlegrar geðveiki. Reyndar má segja með nokkru sanni að fólk sem er alið upp í eðlilegri virðingu fyrir lífinu geti ekki framið morð nema í geðveilukasti og því sé flest slíkt fólk geðveikt og beri að umgangast sem slíkt. Í gamla Sovétinu voru morð talin á þennan hátt og leiddu oftar en ekki til vistunar á geðveikrahæli, en grófir auðgunarglæpir og glæpir gagnvart ríkinu enduðu gjarnan fyrir aftökusveit. Ónefndir útrásarræningjar mega því teljast heppnir að slíkt siðferði ríkir ekki hér á landi, en velta má því fyrir sér hvort ekki eigi að herða verulega refsingar fyrir hvítflibbaglæpi þótt menn verði ekki hengdir uppi í hæsta gálga.

Til að geta borið virðingu fyrir mannréttindum verðum við að bera virðingu fyrir lífinu!


0 ummæli:







Skrifa ummæli