sunnudagur, maí 26, 2013

26. maí 2013 - Um skerðingar ellilífeyrisgreiðslna


Nú hefur Landssamband eldri borgara ferið fram á það við hina nýju ríkisstjórn að hún afnemi tekjutengingar þær sem síðasta ríkisstjórn setti á 2009 þegar ríkissjóður var nánast gjaldþrota eftir hrunið. Ekki þekki ég mjög vel til þessara tekjutenginga en ein þeirra er sú að sett var þak grunnlífeyri þannig að hann var afnuminn við vissar tekjur, en í dag er grunnlífeyrinn 34.053 krónur á mánuði, en hann fellur niður ef lífeyrisgreiðslur og aðrar tekjur ellilífeyrisþegans eru yfir 350.814 krónum á mánuði.

Ég viðurkenni alveg að 350.814 krónur á mánuði er ekkert til að hrópa húrra fyrir, en um leið ber að hafa í huga að margir eldri borgarar eru með miklu hærri tekjur en þetta. Um leið eru margir með miklu lægri tekjur en þessu nemur. Þeir einstaklingar fá enga leiðréttingu á skerðingunni. Það þýðir að leiðréttingin á skerðingunni kemur einungis betur stöddum lífeyrisþegum til góða, alls ekki þeim sem verst eru staddir.

Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema hátekjuskattinn, Framsóknarflokkurinn vill afnema skerðingu eftirlaunagreiðslna. Jóhanna Sigurðardóttir fær þá talsverðar leiðréttingar á eftirlaunum sínum væntanlega gegn eigin vilja þar sem hún gerði sér grein fyrir miklum vanda ríkissjóðs á sínum tíma og studdi þær skerðingar á lífeyrisgreiðslum sem gerðar voru og hún studdi sömuleiðis hátekjuskattinn. Þótt staða ríkissjóðs hafi lagast verulega undir stjórn Jóhönnu þá er hún enn óásættanleg. og því mikil dirfska að ráðast þegar í verulegar breytingar á skatt- og eftirlaunakerfinu í þá veru að einungis hinir efnaðri hagnist á því.

Ef hinsvegar verður ráðist í að hækka skattleysismörkin kemur það öllum til góða, líka þeim fátækari. Nær væri fyrir hina nýju ríkisstjórn að fara frekar þá leið sem leiðir til jafnaðar en að verðlauna einungis þá ríku.
 


0 ummæli:







Skrifa ummæli