laugardagur, janúar 11, 2014

11. janúar 2014 - Næturvaktin á Rás 2


Það er föstudagskvöld. Það er samt engin næturvakt á Rás 2. Guðni Már situr heima atvinnulaus og spilaður er eldgamall útvarpsþáttur um eina hljómplötu, vissulega góður þáttur sem ég hafði gaman af á sínum tíma, en enganveginn sá gagnvirki útvarpsþáttur sem næturvaktin var.

Nú er næturvaktin á Rás 2 hætt, kannski að fullu og öllu, kannski þar til við fáum nýjan útvarpsstjóra. Ég er ekki ánægð með þessa nýju tilhögun. Ég borga mitt útvarpsgjald sem hækkaði um áramótin og ég er ósátt við að þeir fjármunir renni ekki allir til útvarpsins, til Rásar 1, til Rásar 2, til sjónvarpsins.

Nokkru fyrir jól tilkynnti þáverandi útvarpsstjóri þá ákvörðun sína að segja upp mörgum starfsmönnum RÚV þar á meðal þeim sem ég þekkti örlítið meira en í gegnum RÚV einvörðungu, fólk á borð við Lindu Blöndal og Guðna Má Henningsson sem jafnframt voru uppáhaldsútvarpsfólkið mitt. Linda hvarf á braut sama dag og hún fékk uppsagnarbréfið, en Guðni Már fékk að vinna hluta uppsagnarfrestsins.

Það er skelfilegt að lenda í uppsögnum af þessu tagi sem fyrrum starfsfólk RÚV varð fyrir. Svipuð uppsagnahrina átti sér stað á mínum vinnustað fyrir fáeinum árum. Það var ekkert farið eftir starfsreynslu hjá fyrirtækinu. Þetta starf var lagt niður, þessi starfsmaður hafði verið ókurteis við viðskiptavinina, þessi var oft veikur.  Sumir fengu nýja vinnu strax, aðrir ganga enn um atvinnulausir. Þarna hurfu margir vinnufélagarnir á brott frá fyrirtækinu, sumir eftir fleiri áratuga þjónustu við íbúa Reykjavíkur. Nú er leiðin upp á við hjá okkur en erfiður var þessi tími. Nú horfum við á svipaða uppsagnahrinu hjá RÚV.

Í mörg ár hefur Guðni Már verið næturvaktin á Rás 2. Hann hefur staðið vaktina á föstudagskvöldum, en ýmsir hafa sinnt næturvaktinni á laugardagskvöldum þar á meðal hin mjög svo geðþekka Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun), en síðustu árin hefur Ingi Þór Ingibergsson séð um þá vakt. Flest eða öll hafa verið sérlega þægileg, en Guðni Már, sem er gamall félagi minn frá fyrri tíð, þeirra bestur.

Þessi útvarpsþáttur var slíkur að hann jók á tekjur útvarpsins á öðrum tímum því fólk er ekki sífellt að skipta um útvarpsstöðvar. Það heldur tryggð við sína útvarpsstöð og auglýsendur skilja slíkt og veðja á frábæra þáttastjórnendur á borð við Guðna Má, Lindu Blöndal og Guðfinn Sigurvinsson. Nú hefur öllum verið hent út og íslenska þjóðin er fátækari á eftir.

Að þessum persónum hefur verið sagt upp er ekki spurning um sparnað. Það er verið að sökkva Ríkisútvarpinu af ásettu ráði. Einkavæðingin stjórnar nýrri ríkisstjórn og RÚV er sett á brennuna. Þess vegna var útvarpsstjóranum gerð grein fyrir því að hann væri ekki velkominn um borð um leið og hann hafði unnið skítverkið fyrir hina nýju stjórn RÚV.

Til íslenskra kjósenda segi ég bara. Þetta kusuð þið yfir ykkur og skammist ykkar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli