fimmtudagur, mars 13, 2014

13. mars 2014 - Enn um Laugarnesskóla og nám mitt þar.

Þótt margt megi segja um Laugarnesskóla, bæði jákvætt og neikvætt verður ekki af skólanum tekið það sem vel var gert.  Tónlistarkennsla var þar í miklum hávegum framan af undir stjórn brautryðjandans Ingólfs Guðbrandssonar og síðar hinnar ágætu Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur sem kenndi þar þegar ég kom í skólann í 12 ára bekk. Vafalaust hefur svo verið lengi og er tónlistin kannski enn í hávegum þótt ekki hafi ég fylgst mikið með skólanum undanfarna áratugi.

Sjálf kom ég úr öðrum skóla sem síðar varð landsfrægur fyrir mikla og góða tónlistarkennslu, en hún var ekki komin almennilega í gang á þeim tíma sem ég var í Brúarlandsskóla/Varmárskóla. Þá var það Óli fiðla sem spilaði á fiðluna sína og ætlaðist til að krakkarnir syngju með á milli þess sem hann sagði okkur velvaldar togarasögur af sjálfum sér. Við þessar aðstæður var lítið spáð í vandaða tónlistarfræðslu í Mosfellssveit. Þegar ég kom í tónlistartíma hjá Guðfinnu í 12 ára bekk stóð ég því langt að baki hinum krökkunum sem flest eða öll höfðu fleiri ára nám að baki í tónlist.

Haustið 1963 var haldið eitt skyndipróf í tónlist hjá Guðfinnu. Ekki man ég hvað ég fékk í einkunn, en það var lágt og vafalaust einvörðungu fyrir viðleitni. Ekkert miðsvetrarpróf var haldið. Guðfinna var ung og lofuð og er enn hamingjusamlega gift Rúnari Einarssyni rafvirkja, en þegar leið nærri jólum 1963 varð hún að hætta kennslu enda þunguð af frumburði sínum og enginn tónlistarkennari fékkst í hennar stað í skólanum það sem eftir lifði vetrar.

Það er ástæða til að geta þess nú því þann 14. mars 2014 eru liðin 50 ár frá því Hildigunnur Rúnarsdóttir tónlistarkennari og tónskáld fæddist, en það var einmitt hún sem bjargaði mér frá falli í skóla með fæðingu sinni fyrir hálfri öld.




0 ummæli:







Skrifa ummæli