föstudagur, mars 28, 2014

28. mars 2014 - Eins og þjófar á nóttu


Ég hefi aldrei litið á sjálfa mig sem neinn andstæðing hvalveiða. Í mínu ungdæmi var hrefnukjötið eins og nautakjöt fátæka fólksins. Það var mjög ódýrt og notað í gúllas og aðra kjötrétti þegar peningana skorti fyrir gæðakjötinu. Þótt kjöt af stórhval væri öllu minna áberandi á markaðnum smakkaði maður það samt stöku sinnum þótt það minnti kannski meira á hrossakjöt eftir rétta meðhöndlun þeirra sem vit höfðu á.

Ástæða þess að ég fer að rifja þetta upp hér og nú er einkennileg flutningsleið á hvalkjöti þessa dagana. Þegar japönsku togararnir komu heim frá Japan fóru þeir yfir Kyrrahaf og í gegnum Panamaskurð á leið sinni til Íslands. Ástæða þess var að Suezskurðurinn var lokaður vegna styrjaldarástandsins fyrir botni Miðjarðarhafsins og því valin næststysta leiðin frá Japan. Á þeim tíma voru byggð nokkur risaskip til flutninga á olíu frá Persaflóa suður fyrir Afríku og til Evrópu, en eftir að Suezskurðurinn var opnaður aftur urðu þessi risaskip úrelt og voru flest rifin eftir örfá ár í rekstri. Eftir það lögðust flutningarnir suður fyrir Afríku af að mestu, en þó var eitt og eitt skip sem valdi þessa leið til að forðast athygli, t.d. vopnaflutningaskip og skip sem fluttu kjarnorkuúrgang til eyðingar.

Fyrir tæpri viku síðan lagði frystiskipið Alma sem skráð er á Kýpur úr höfn í Hafnarfirði áleiðis til Japan. Þeir þorðu ekki að fara í gegnum Suez og alls ekki í gegnum Panama. Yfirvöld í Egyptalandi og Panama eru sennilega talin vera á móti flutningum á hvalkjöti um þeirra yfirráðasvæði. Ákvörðunarhöfnin er ekki gefin upp, en skipið siglir suður með ströndum Afríku og var á fimmtudagskvöldið á siglingu vestan Kanaríeyja. Þess var vandlega gætt að breyta stefnunni svo skipið færi ekki inn fyrir 12 mílna landhelgina, en um leið og komið var framhjá eyjunum var stefnunni breytt örlítið og farið nær ströndum Afríku á leiðinni í hitabeltið. Það lítur út fyrir að farmurinn sé stórhættulegur, geislavirkur eða eitthvað enn verra. Það er þó ekki svo. Farmurinn er hvalkjöt. Þarf virkilega að flytja hvalkjöt fleiri þúsund aukalega kílómetra til að koma því á markað í Japan?  Skipið er látið sigla í gegnum hitabeltið, yfir miðbaug og suður fyrir Góðrarvonarhöfða og síðan aftur yfir miðbaug á leiðinni yfir Indlandshafið. Það er engum að treysta og þar eru spönsk og egypsk yfirvöld meðtalin. Eins gott að ekkert bili í frystikerfum skipsins á þessari  sjóðheitu siglingaleið. 

Menn læðast eins og þjófar á nóttu eftir krókaleiðum yfir hálfa jörðina til þess eins að kasta hvalkjöti fyrir hunda í Japan.  Miðað við þessa flutningaleið held ég að það sé ljóst að íslensk yfirvöld og fulltrúar hvalveiðimanna hafa tapað áróðursstríðinu og einungis spurning hvenær veiðar á stórhval leggjast af. Sennilega er það best að hætta þessu hið fyrsta og áður en Íslendingar verða sér enn frekar til minnkunar í umhverfis- og náttúruvernd gagnvart þjóðum heimsins.     

2 ummæli:

  1. Skrýtin aðgerð að flytja kjöt sem íslendingar hafa takmarkaðan áhuga á að veiða og Japnair á að éta eftir þessum krókaleiðum.

    Ef þetta gengur ekki er samt ein leið enn eftir. Í seinni heimstríðjöldinni fóru viðkvæmustu flutningar milli Japan og Þýskalands með kafbátum.

    Ætli það verði ekki seinasta leiðin til að brjóta það hafnbann sem komið er á hvalinn.

    SvaraEyða
  2. Þetta er magnað. Flott hjá þér að gera þetta opinbert.

    SvaraEyða