föstudagur, nóvember 14, 2014

14. nóvember 2014 - Ölkynning



Var boðið að vera með á bjórkynningu hjá Ölgerðinni á föstudagskvöldið með erlendum túrhestum og íslenskum leiðsögumönnum í boði íslenskrar vinkonu minnar sem einnig er leiðsögumaður og fréttamaður.  Það var ekki verra er ég kom í þetta hræðilega hús sem tók útsýnið til Sundahafnar af vélfræðingum Orkuveitunnar að fyrsti maðurinn sem ég mætti þegar komið var í húsnæði Ölgerðarinnar var sjálfur Stefán Pálsson sem var á hraðferð í burtu til að stjórna spurningaþætti hjá sjónvarpinu.

Ég átti samt ekki von á miklu þar sem ég átti von á leiðinlegum fyrirlestri á útlensku um gæði ölgerðarinnar en játa að ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Rammíslenskur barþjónn að nafni Sigríður Björk, þó ekki lögreglustjóri, sem var einnig fyrirlesari kunni sitt fag, virtist alvön enskum krám og beitti dæmigerðu ensku hegðunarmunstri við fyrirlesturinn.

Ég er í ölbanni þessa mánuðina þó með undantekningum á meðan ég er í Bjarnakúrnum, þ.e. ég má einungis neita matar og drykkjar að verðmæti 248 krónur að hámarki fram að jólum, þó að undanskilinni Framsóknarundantekningunni, þ.e. að drekka tæplega eina kippu af öli eða sem samsvarar „leiðréttingunni“  á mánuði. Með þessu hefur mér tekist að ná af mér tíu kílóum, en það er önnur saga.  Ég leyfði mér að gera undantekningu í kvöld, naut frábærs fyrirlestrar Sigríðar Bjarkar sem fór á kostum er hún lýsti íslenskri áfengissögu  yfir erlendum túrhestum sem einnig nutu fyrirlestursins að smökkun íslensks brennivíns frátöldu, en það virtist einasti galli kvöldsins, allavega hvað túrhestana snerti.

Ég hlakka til að komast sem fyrst eftir áramótin í bjórskóla Ölgerðarinnar. Það er allavega stutt að rölta að heiman í skólann, reyndar rétt eins og þegar ég var í Vélskólanum og bjó nánast mitt á milli Ríkisins, áfengisverslunarinnar við Snorrabraut og Vélskólans á áttunda áratug síðustu aldar og stysta leiðin fyrir félagana á heimavistinni var að fara í gegnum húsið heima á leið heim úr Ríkinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli