fimmtudagur, október 15, 2015

15. október 2015 - El Faro og Jón Hákon.

Á fimmtudagsmorguninn las ég í fréttum að aðstandendur Lonnie Jordan, eins 33 áhafnarmeðlima gáma- og ekjuskipsins El Faro sem talið er hafa farist í Karabíska hafinu fyrir fáeinum dögum hefðu stefnt útgerð skipsins til greiðslu 100 milljóna dollara skaðabóta vegna fráfalls hans. Vilja aðstandendur meina að skipið hafi alls ekki verið í haffæru ástandi er það hélt í sína hinstu för og því sé útgerðin skaðabótaskyld.

Ég fór að velta þessu fyrir mér, ekki síst eftir Kastljósþátt kvöldsins á undan þar sem forstjóri Samgöngustofu lék hrokafullan embættismann í viðtali við Helga Seljan, af hverju gerir fjöldskylda mannsins sem fórst af Jóni Hákon BA ekki slíkt hið sama? Við vitum jú að björgunarbúnaður bátsins brást þegar til átti að taka og það kostaði mannslíf.

Það er ljóst að með slíkum kröfum sem vissulega má telja mjög háar lendir kostnaðurinn af slíku að miklu leyti á tryggingafélagi skipsins sem aftur mun krefjast verulegra úrbóta af hálfu allra útgerðarmanna og jafnframt auka kröfurnar á hendur Samgöngustofu um betra eftirlit með skipum sem sigla hér við land, þar á meðal að orsakir slysa verði kannaðar út í ystu æsar, sokknum bátum verði lyft upp á yfirborðið svo hægt verði að leita orsakanna. Þannig verði þetta til að bæta öryggi sjófarenda í framtíðinni. Þetta er gert með flugvélar, af hverju ekki líka báta?

Þegar bátsmaðurinn á Ægi fórst þegar reynt var að bjarga Víkartindi í mars 1997 kom í ljós í fréttum af slysinu að líf sjómannsins er margfalt minna virði en líf flugmannsins þegar kemur að greiðslu skaðabóta eftir banaslys. Ef ekki er búið að breyta þessu, er þá ekki kominn tími til breytinga?

------

Uppfært 15. október vegna athugasemdar frá vini:
Í sambandi við bloggið þitt þá hefur sú breyting orðið að sjómenn og aðstandendur þeirra fá bætur samkvæmt almennum skaðabótalögum í dag sem var ekki þegar Vikartindur gerðist fjörulalli.


0 ummæli:Skrifa ummæli