laugardagur, apríl 16, 2016

16. apríl 2016 - Brauðmolastefnan



Ég var á ferð í Skotlandi og norðurhluta Englands um daginn og mér brá að sjá alla þessa betlara, ekki aðeins í Edinborg, heldur einnig í Newcastle. Þetta virtust ekki vera innfluttir betlarar frá Balkanskaga heldur hreinlega fólk sem hefur orðið undir í lífinu í konungsríkinu.

Mér var hugsað til fátæktarinnar í Grimsby eftir að fiskiðnaðurinn hrundi þar eftir að íslenska landhelgin lokaðist um miðjan áttunda áratuginn. Atvinnuleysið jókst mikið og maður fann fyrir miklum biturleika og vonleysi meðal íbúanna, ekki ósvipað og á Íslandi í hruninu fyrir fáeinum árum, en ekki fann ég fyrir neinni heift í garð Íslendinga og aldrei sá ég fólk betla fyrir mat sínum, en hafa ber í huga að Margaret Thatcher varð ekki forsætisráðherra fyrr en 1979.

Nákvæmlega!
Þegar ég spurði innfædda um þennan mikla fjölda betlara voru allir sem ég ræddi við sammála um að þetta væru afleiðingarnar af stjórnarstefnu Margaretar Thatcher og síðar John Major þegar velferðarkerfið var afnumið að miklu leyti á níunda áratugnum og brauðmolakenningin varð að veruleika á Bretlandseyjum og ástandið lagaðist lítt eða ekkert við að hægri „kratinn“ Tony Blair tók við af John Major árið 1997. Ekki veit ég hvernig ástandið er í Grimsby í dag hvað velferðarmál snertir. Ég hefi ekki spurt og enginn hefur sagt mér neitt, en væntanlega mun ég komast að því er ég kem næst til Grimsby á þessu ári eða næsta, en Grimsby á ávallt ákveðinn sess í hjarta mér eftir öll þau skipti sem ég tók þátt í að sigla með fisk þangað  frá 1967 til 1980.

Eitt mega Bretarnir þó eiga. Þeir börðust hatrammlega gegn öllum áætlunum Thatchers um að rústa heilbrigðisþjónustunni og tókst að vinna þar varnarsigur. Vegna þessa fá sonur minn og fjölskylda hans sem búsett eru í Skotlandi fulla og góða heilbrigðisþjónustu sem er að mestu eða öllu leyti ókeypis.

Hvernig er staðan á Íslandi 2016? Ríkisstjórnin er komin á veg með að rústa menntakerfinu, m.a. með afnámi fullorðinsfræðslunnar að hluta, heilbrigðiskerfið er þegar í molum og almenningur þarf að greiða himinháar upphæðir fyrir læknisþjónustu og lyf. Húsnæðiskerfið er í rúst og nánast vonlaust fyrir fólk með meðaltekjur að kaupa sér þak yfir höfuðið. Búið er að skerða atvinnuleysisbætur og við heyrum stöðugar hótanir ráðamanna um niðurskurð velferðarkerfisins að öðru leyti, t.d. í geðheilbrigðismálum.

Er nema von að ungt fólk telji sig ekki lengur velkomið á Íslandi, heldur telur sig betur komið með búsetu erlendis, jafnvel á Bretlandseyjum þar sem brauðmolastefnan hefur ríkt í þrjá áratugi?


0 ummæli:







Skrifa ummæli