þriðjudagur, janúar 16, 2018

16. janúar 2018 - Sorgardagur?




Sextándi janúar er vissulega sorgardagur. Á þessum degi árið 1995 fórust 14 manns í snjóflóði í Súðavík og á þessum sama degi árið 2018 var sonur Gurríar vinkonu minnar borinn til grafar eftir að hafa farist í bílslysi tæpum tveimur vikum fyrr.

Ég man að þegar sagt var frá snjóflóðunum í Súðavík í fréttum var ég á vaktinni í Hässelbyverket, orkuveri í úthverfi Stokkhólms og einhvernveginn fannst mér það svo fjarlægt eftir nokkurra ára búsetu í Svíþjóð, en þegar nöfn fólksins sem fórst voru birt, rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði átt nokkur samtöl við eitt fórnarlambið áður en ég flutti, en ég hafði verið málkunnug Bellu Vestfjörð áður en ég flutti til Svíþjóðar 1989 sem um leið gaf hörmungum andlit, en Bella var eitt fjórtán fórnarlamba snjóflóðsins í Súðavík. Snjóflóðið á Flateyri innan við ári síðar var öllu nálægara enda náðu sænskir fjölmiðlar strax sambandi við Hildi vinkonu mína sem var nýlega flutt til Flateyrar frá Stokkhólmi.  

23 árum síðar var ég við útför ungs manns sem hafði farist í umferðarslysi tæpum tveimur vikum fyrr, en Einar Þór Einarsson var sonur Guðríðar Haraldsdóttur sem skráði sögu mína síðastliðið ár. Sama dag var tilkynnt um tvær viðurkenningar sem mér hlotnuðust, annars vegar sem persónu ársins 2017 á veftímaritinu GayIceland.is, en síðar sama dag fékk ég einnig 2. verðlaun í ljósmyndasamkeppni sjómanna, mynd sem ég hafði vissulega tekið en mávur stal fókusnum er ég ætlaði að mynda Goðafoss á leið til hafnar í Reykjavík frá Grundartanga. Já, vissulega er ég hætt til sjós, en má halda titlinum sem fyrrverandi sjómaður og sem vélstjóri á björgunarskipi í frítímanum.

Því má segja að 16. janúar sé dagur góðs og ills, bæði dagur sorgar og dagur fagnaðar rétt eins og aðrir dagar ársins, en samt dagur sem vert er að minnast.     


0 ummæli:







Skrifa ummæli