mánudagur, janúar 29, 2018

29. janúar 2018 - Þór Elísson 1929-2018




Ég ætlaði að mæta í útför eins uppáhalds skipstjóranna minna í dag, en ég var kölluð út á aukavakt og varð af útförinni. Það breytir ekki því að Þór Elísson var annar uppáhaldsskipstjórinn minn, næstur á eftir móðurbróður mínum Pétri Þorbjörnssyni. Þeir voru vinir og skipsfélagar og báðir frábærir félagar sem gott er að minnast.

Það var haustið 1980. Ég var nýkomin um borð í Bakkafoss aftur eftir nokkurra ára fjarveru og flestir í áhöfn skipsins voru mér nýir. Skipstjóri skipsins var nú Þór Elísson og yfirstýrimaður Ragnar Valdimarsson. Við vorum í höfn í Portsmouth í Virginíufylki í Bandaríkjunum og ég hafði verið í bænum ásamt nokkrum skipsfélögum, en ég hafði bíl til umráða þegar verið var í höfn í Portsmouth/Norfolk. Þegar ég kem niður að hafnarsvæðinu biður lögreglumaðurinn í hafnarhliðinu mig um að koma með aðeins inn í vaktskúrinn sem ég gerði. Þar sat þá skipstjórinn okkar og bað mig að koma með sér upp í bæ til að leysa úr vandræðum sem einhverjir úr áhöfninni höfðu komið sér í. Hann var nokkuð hreyfur af öli og vildi fá einhvern edrú til að fylgja sér til höfuðstöðva lögreglunnar í Norfolk. Það var alveg sjálfsagt ég skilaði félögum mínum um borð og við Þór Elísson héldum af stað til Norfolk.

Á leiðinni útskýrði Þór fyrir mér hvað væri í gangi. Fjórir ungir áhafnarmeðlimir skipsins höfðu verið handteknir og settir í steininn vegna ósæmilegrar hegðunar í miðborg Norfolk, en sá fimmti, messaguttinn taldist undir lögaldri og samkvæmt reglum í fylkinu taldist hann of ungur til að hægt væri að hneppa hann í varðhald án þess að tilkynna slíkt til foreldra eða lögráðamanna og því þurfti lögráðamaður piltsins að sækja hann. Skipstjóri skipsins væri í þessu tilfelli talinn vera lögráðamaður hans og því þurfti að sækja piltinn til höfuðstöðva lögreglunnar í Norfolk. Það gekk fljótt og vel að finna höfuðstöðvar lögreglunnar í Norfolk og fórum ég og Þór skipstjóri síðan með hjálp vakthafandi lögreglumanna inn á réttu deildina í þessari miklu byggingu þar sem pilturinn var í gæslu þar sem við hittum fyrir vakthafandi vaktstjóra.

Eftir að hafa heilsað varðstjóranum hóf okkar maður, ákveðinn í bragði að tilkynna að hann væri hingað kominn til að leysa úr haldi fimm unga stráka frá sér sem lögreglan hefði í haldi. Varðstjórinn mótmælti og neitaði að láta fleiri af hendi en messaguttann, nema ef skipstjórinn vildi reiða fram tryggingafé til að fá hina fjóra lausa. Hinir fjórir þyrftu að mæta fyrir dómara um morguninn. Ekki man ég hvert tryggingaféð átti að vera en það var alltof hátt til að skipstjórinn væri með það handbært. Þór reyndi samt hvað hann gat til að fá drengina lausa og stríddi varðstjóranum góðlátlega í leiðinni. Við fengum að heyra að brot strákanna hefði verið heimsókn í ólöglegt hóruhús.
„Þú verður þá að sjá til þess að þeir fái lista yfir löglegu hóruhúsin þegar við komum hingað næst!“

Við fengum messaguttann afhentan, kornungan strák sem var í sinni fyrstu ferð til sjós. Hinir fjórir fengu allir að dúsa í dýflissunni um nóttina. Á leiðinni til baka til skips reyndi skipstjórinn að ræða við messaguttann. „Hvað voruð þið að gera af ykkur? Hvað voruð þið að þvælast inn í mitt svertingjahverfi um hánótt? Er ekki til nóg af stelpum á Íslandi?“ Spurningarnar dundu á stráknum sem hummaði allar spurningarnar af sér og svaraði litlu og fálega. „Og mundu það að ef þú svarar mér ekki hvað gerðist áttu skilið að verða rekinn!“ Alveg sama sagan.

Við komum um borð, skipstjórinn skipaði messanum að fara í koju og þeir myndu ræða betur saman í fyrramálið. Ég og Þór fórum upp í setustofu skipstjóra og fengum okkur sinnhvorn bjórinn og skyndilega fór hinn reiði skipstjóri að hlæja eins og asni:
„Mikið djöfull var þetta gott hjá stráknum, hann á eftir að spjara sig í lífinu. Að segja ekki orð um félaga sína er gulls ígildi. Ég skal sko segja þér það, að ef hann hefði byrjað að romsa upp úr sér öllu um hina, þá hefði ég rekið hann!“

Morguninn eftir var skipverjunum fjórum sleppt úr haldi eftir að hafa verið dæmdir til greiðslu lægstu sektar til málamynda fyrir brot sín og urðu ævintýrin ekki fleiri í þessari ferð. Messaguttinn sigldi með okkur í nokkra mánuði eftir þetta og var ávallt í miklu uppáhaldi hjá Þór skipstjóra eftir að hann sannaði þagmælsku sína með óvægnum hætti nóttina forðum. Hann hætti þó fljótlega til sjós og hóf að starfa í landi þar sem hann lést síðar í vinnuslysi.

Ég þekkti ekki Þór Elísson áður en ég kom aftur um borð í Bakkafoss haustið 1980, en þá sigldi ég með honum í rúmt ár og síðar einnig á öðrum skipum Eimskipafélagsins, Af reynslunni get ég fullyrt að Þór Elísson var einn viðkunnanlegasti og vinsælasti skipstjórinn sem ég hefi verið með til sjós að öðrum skipstjórum ólöstuðum og ég man ekki til þess að hann hefði rekið nokkurn mann án ærinnar ástæðu.

Megi minning Þórs Elíssonar skipstjóra lifa með okkur til æviloka.


0 ummæli:







Skrifa ummæli