laugardagur, maí 21, 2011

21. maí 2011 - Landeyjahöfn

Landeyjahöfn var mörgum Eyjamönnum hausverkur vetrarins af eðlilegum orsökum. Eftir alla þá gagnrýni sem gerð Landeyjahafnar hafði orðið fyrir áður en hún var tekin í notkun var erfitt fyrir þá og aðra sem að hönnuninni stóðu, að kyngja mótlætinu og viðurkenna að þeir hefðu haft rangt fyrir sér og að Landeyjahöfn yrði langtíma vandræðabarn.

Sjálf var ég hikandi vegna þröngrar innsiglingar og aðkomu að höfninni utan frá sjó. Með gosinu í Eyjafjallajökli mátti búast við að hægt yrði að nota höfnina sem hestarétt yrði gosið langvarandi og mikil gosefni hlæðust upp við vestanverða suðurströndina. Um leið virtist hafnarstæði á þessum stað svo skemmtilegt og möguleikarnir miklir á bættum samgöngum við Eyjar með höfninni, en eftir fyrstu vikur velgengni kom alvarlegt bakslag í málið þegar höfnin nánast fyllt af aurburði frá Markarfljóti og hefur síðan verið til mikilla vandræða.

Ekki dettur mér til hugar að afskrifa Landeyjahöfn þrátt fyrir mikla erfiðleika fyrsta árið sem hún hefur verið í notkun. Það má reikna með að aurburðurinn úr Eyjafjallajökli minnki þegar á líður, en það er engan veginn nóg. Það þarf að tryggja á einhvern hátt sandurinn safnist ekki að hafnarmynninu og inn í höfnina. Að hluta til er það hægt með öðrum varnargarði austan við núverandi austurgarð og sem nær mun lengra út en það tryggir ekki lausn málsins um aldur og ævi.

Einhver sem ræddi Landeyjahöfn við mig velti fyrir sér þeim möguleika að leggja rör frá Markarfljóti og niður í höfnina og út í hafnarmynnið og fá þannig jektoráhrif í höfnina. Ég veit hinsvegar ekki hvort slíkt myndi nægja eitt sér til að framkalla nægileg jektoráhrif í hafnarkjaftinn eða hvort koma þyrfti til einhver dæling á vatninu til að auka þrýstinginn út í röropið, en þessi lausn er örugglega vel þess virði að skoða rækilega auk þess sem hún gæti orðið mjög ódýr í framkvæmd miðað við allan þann kostnað sem sífelldar dælingar með hálfónýtum dýpkunarprömmum hafa kostað hafnaryfirvöldin.

Allavega trúi ég því að einhver góð lausn finnist á endanum og að Landeyjahöfn eigi eftir að verða okkur öllum til ánægju í framtíðinni.


0 ummæli:Skrifa ummæli