miðvikudagur, maí 04, 2011

4. maí 2011 - Launþegar?

Þessa dagana er stöðugt verið að tönnlast á því í fréttatímum á rúffinu eða hvað sem Ríkisútvarpið er farið að kalla sjálft sig, að launþegafélög séu að semja um laun, um lágmarkslaun launþega og verkfallsrétt launþega. Það er þá eitthvað annað þegar rætt er um vinnuveitendur.

Ég hefi aldrei þegið nein laun. Ég hefi orðið vinna hörðum höndum fyrir laununum mínum allt mitt líf og aldrei þegið neitt. Atvinnurekendur hafa heldur aldrei veitt mér neitt heldur hafa þeir keypt vinnu mína og vinnutíma til að hámarka gróða sinn. Þá hefi ég sjaldnast fengið þau laun sem ég hefi talið mig eiga skilið fyrir vinnu mína og í einhverjum tilfellum hefi ég ekki einu sinni fengið umsamin laun. Til að tryggja laun fyrir vinnu mína er ég meðlimur í verkalýðsfélagi, en ekki í launþegafélagi.

Er ekki kominn tími til að fólki fari að kalla hugtök verkalýðsbaráttunnar aftur sínum réttu nöfnum?


0 ummæli:Skrifa ummæli