mánudagur, ágúst 12, 2013

12. ágúst 2013 - Enn um strákana á Borginni


Um og eftir helgina hafa tveir menn verið áberandi í umræðunni um hinsegin fólk og þá sérstaklega samkynhneigða stráka. Nöfn þeirra skipta í sjálfu sér ekki máli. Það vita það allir sem vilja vita og ég sé ekki ástæðu til að básúna út nöfn þeirra ef ske kynni að þeir sæu eftir orðum sínum. Ég fór hinsvegar að velta fyrir mér orðum þeirra og nokkurs hóps fólks sem meðal annars hringdi inn á Bylgjuna eða tjáði sig í vefmiðlum til að lýsa yfir stuðningi við fordóma þessara manna og upp í hugann kom gamall pistill sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum og sem ég birti hér lítið breyttan:

Upp kom í hugann minning um strák sem var dæmigerður fyrir strákana á Borginni og sem ég kynntist á árunum eftir 1980. Hann var ungur og hann var með fallegustu strákum sem ég hefi fyrirhitt um dagana. Stelpur voru mikið á eftir honum, en hann hafði engan áhuga. Hann hét Sigurgeir og var stundum kallaður Flissfríður sem sagði heilmikið um karakterinn, enda hafði hann gaman af að leika stelpu og hann var hommi af guðsnáð í samfélagi sem hatar þá.

Á þessum árum voru enn skörp skil á milli kynjahlutverka og Sigurgeir fór ekki varhluta af þessum fordómum samfélagsins. Einhverju sinni var hann í kvenhlutverki og var að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur og gengu lætin út í nokkrar öfgar, svo mjög að lögreglan sá ástæðu til aðgerða. Er lögreglumennirnir (sem voru greinilega ráðnir fyrir daga upplýsingar um mannlegt eðli) uppgötvuðu hvers kyns var, tóku þeir drenginn inn í Svörtu Maríu og tuskuðu til að hætti þess sem valdið hefur. Þetta hefi ég eftir fólki sem var með honum, en sem gat ekki hönd við reist þegar yfirvaldið var annars vegar og engin urðu kærumálin í kjölfarið. Sjálf var ég víðsfjarri, í útlöndum eða á hafi úti og frétti ekki af þessu fyrr en löngu síðar.

Sigurgeir bar sitt barr aldrei eftir þetta. Hann lést innan við ári síðar af öðrum völdum og hans var sárt saknað af vinum sínum, en fátt hægt að gera nema að reyna að bæta skoðanir almennings á öðruvísi viðmiðum á kynhlutverkum og kynhneigð.

Á þessum árum var ég í krísu. Ég hafði gengið í gegnum misheppnað hjónaband og eignast þrjú börn, en hafði ávallt upplifað mig á röngum stað í tilverunni. Ég átti að leika eitthvað sem ég var ekki, eitthvað sem var fjarri eðli mínu. Kynni mín af Sigurgeir, kenndu mér að halda mér á mottunni, að gæta hófsemi og auglýsa ekki eðli mitt. Úr því yfirvöldin beittu þá sem ekki voru jafnöfgakenndir og ég taldist vera á þessum tíma, slíku harðræði sem raun bar vitni, hvernig færu þeir þá að mér? Ég tók enga áhættu og flúði land nokkru síðar, þó ekki af þessum ástæðum sem þó voru ærnar..

Ég vil taka fram að ég hefi löngum átt ágætis samstarf við lögregluna, bæði á Íslandi og í Svíþjóð og veit engan þann starfandi lögreglumann á Norðurlöndum í dag sem vildi feta í fótspor félaga sinna fyrir tveimur áratugum, en hugsið ykkur. Það eru bara 27 ár síðan Sigurgeir var laminn af lögreglunni á Lindargötunni í Reykjavík.

Það er ástæða til að minnast Sigurgeirs í dag. Hann var eitt af fórnarlömbum fordóma gegn samkynhneigðum og hann komst aldrei í gleðigöngu. Hann varð aldrei aðnjótandi mannréttinda sem flestum þykja eðlileg í dag en varð iðulega fyrir barðinu á ofbeldi og fordómum gamalla nöldurseggja af því tagi sem nú sjá ofbeldi í kærleika milli tveggja einstaklinga af sama kyni.

Gleðiganga hinsegin fólks er ekki bara gleðiganga. Hún er til að fagna áföngum sem hafa náðst en um leið hvatning til fólks um að taka okkur í sátt, ekki aðeins í Reykjavík heldur um allan heim. Þar vantar mikið upp á og því er gleðigangan nauðsynleg og því fjölmennari sem hún er, því sterkari skilaboð erum við að senda út til heimsbyggðarinnar. Við þurfum einnig að hvetja alla sem geta að taka þátt í mannréttindastarfi Samtakanna 78 með því að skrá sig sem félaga og sýna þar með gömlu nöldurseggjunum að fordómar þeirra verði ekki liðnir í framtíðinni.
 
Þegar Bubbi Mortens gaf út lag sitt um Strákana á Borginni varð viðhorfsbylting í viðhorfi til samkynhneigðra á Íslandi. Hegðun gömlu nöldurseggjana sýnir að hvergi má slaka á. Baráttunni er ekki lokið.  

9 ummæli:

 1. Takk fyrir frábæran pistil.
  Það er rétt sem þú segir í lokin, að Bubbi hefur verið stór í viðhorfsmótun samtíma okkar en það hefur þú líka verið Anna.

  Það fólk sem hefur ritað þung orð undanfarið mætti vel hugleiða þann persónustyrk og hugrekki sem þarf til að móta samtíma okkar eins og þú hefur gert.

  SvaraEyða
 2. Nei, baráttunni er hvergi nærri lokið og við verðum og munum halda henni áfram, það er okkar allra hagur. Takk kærlega fyrir þennan pistil <3

  Kær kveðja
  Ingibjörg Ýr

  SvaraEyða
 3. Ég er svo innilega glaður yfir þessum pistli Önnu Kristjánsdóttur að mig vantar orð til að lýsa því nógu vel. Eiginlega einmitt vegna þess hvað frásögnin er hræðileg.

  – Hlynur Þór Magnússon.

  SvaraEyða
 4. Góður pistill Anna. Ég þekkti lauslega þennan dreng sem þú talar um og vissi ekki að hann væri látin fyrr en nú. Góður karakter var hann og skemmtilegur.

  SvaraEyða
 5. Þakka þér fyrir skrifin Anna. Það er löng leið eftir enn til þess að allir teljast jafnir í forpokuðu samfélagi.
  Freyja

  SvaraEyða
 6. Vel mælt Anna. Það koma þeir tímar að fólk hættir vonandi að skipta sér af.
  kv. Anna

  SvaraEyða
 7. Elín Finnbogadóttir13 ágúst, 2013

  Frábær pistill :-)

  SvaraEyða
 8. Flott skrif og þörf.

  SvaraEyða
 9. Tilveruréttur þinn er ekki eins og minn en mannréttindi höfð að leiðarljósi fordómalaust og án ofbeldis

  SvaraEyða