fimmtudagur, ágúst 29, 2013

29. ágúst 2013 - Sigurður VE




Sagt er að gamlir sjóhundar eins og ég séum með salt í blóðinu og má það rétt vera. Eftir að hafa verið á sjó á þriðja áratug á sínum tíma er erfitt að losna við bakteríuna úr blóðinu þótt ég sé löngu hætt föstu starfi á sjó og enn sé ég fátt fegurra en skip með fallegar línur.

Eitt af fegurri skipum flotans hélt úr höfn í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 28. ágúst áleiðis til Esbjerg í Danmörku þar sem skipið verður rifið. Hér er ég að tala um Sigurð VE-15, sem upphaflega hafði einkennisnúmerið ÍS-33 og síðar RE-4 áður en farið var að gera það frá Vestmannaeyjum.  Þrátt fyrir þetta var skipið alla tíð í eigu sömu fjölskyldunnar, Einars ríka Sigurðssonar og fjölskyldu. Sigurður var ekki einungis eitt af fegurri skipum flotans heldur og eitt þeirra skipa sem hafa komið með mestan afla að landi. Skipið var aflahæsti togari landsins í átta ár áður en því var breytt í nótaskip og var síðan sem slíkt aflahæsta nótaskip flotans um árabil. Nú er orðið of kostnaðarsamt að endurbæta skrokk skipsins og því er það selt í brotajárn.

Ég fór einu sinni jólatúr á skipinu þegar ég var í Vélskólanum. Það var þá enn síðutogari og haldið var úr höfn 20. desember og farið beint á veiðar. Þetta var erfiður brælutúr fyrir hásetana, en ég hafði það huggulegt í vélarúminu undir öruggri handleiðslu yfirvélstjóra ferðarinnar Guðmundar Aronssonar.  Ætlunin var að toga langt tog á aðfangadagskvöld jóla svo mönnum gæfist tækifæri til að melta jólamatinn, en ekki fór það alveg svo því um vaktaskiptin um kvöldið var trollið híft úr festu og reyndist hengilrifið og því ekki um annað að gera fyrir hásetana en að leggjast í netabætingar á meðan fjölskyldur þeirra sátu að veisluborði undir hljómum jólasálmanna.

Við vorum lengi á veiðum, eina sextán daga ef ég man rétt áður en haldið var í siglingu með aflann til Bremerhaven í Þýskalandi, sömu hafnar og skipið hafði verið smíðað 12 árum áður. Mig minnir að salan hafi gengið sæmilega og á heimleiðinni var komið við í Vestmannaeyjum og tekinn ís til næstu ferðar enda minnir mig að verkfall hafi verið í gangi í Reykjavík á þessum tíma. Þetta var örfáum dögum fyrir gos og ég orðin tveimur vikum á eftir áætlun í náminu, en það fór samt vel að venju.

Eftir þennan túr á Sigurði hefur mér ávallt þótt örlítið vænt um þetta fallega skip sem nú siglir sína síðustu ferð og þykir miður að ekki reyndist vilji til að vernda þetta mikla aflaskip.




0 ummæli:







Skrifa ummæli