fimmtudagur, júní 26, 2014

26. júní 2014 - Faðir minn


Það er dálítið seint að byrja að rita lofgjörð um föður sinn í dag þegar komin eru nærri 18 ár síðan hann lést. En samt á hann skilið nokkur orð frá mér í tilefni af því að í dag eru liðin 100 ár síðan hann fæddist í þennan heim vestur í Stykkishólmi.

Kristján Gunnar Hildiberg Jónsson fæddist 26. júní 1914 í Jóelshúsi við Skólastíg í Stykkishólmi, nokkurn veginn þar sem nú er nýleg viðbygging við Dvalarheimili aldraðra í Hólminum, sonur Jóns Hildiberg Sigurðssonar stýrimanns, bókara og síðast kaupmanns í Stykkishólmi og Sesselju Þorgrímsdóttur konu hans, húsmóður og síðar saumakonu eftir andlát eiginmannsins.

Hann var annað barn hjónanna, en elst var Unnur Hlíf fædd 1911.  Ekki átti fyrir föður mínum að liggja að alast upp í tryggð og faðmi foreldranna því faðir hans lést úr lungnabólgu 30. janúar 1916 einungis 37 ára gamall. Jóna Sigríður systir hans fæddist svo sex mánuðum eftir andlát föðurins, en árið 1920 átti föðuramma mín fjórða barn sitt, Sigurð (Didda Odds hafnsögumann) með Sören Valentínussyni, en lést sjálf tæplega 34 ára gömul 25. febrúar 1922.

Nokkru eftir andlát föður síns var pabbi sendur í fóstur til Vigfúsar Hjaltalín  í Brokey og var því af fjórðu kynslóð í röð sem ólst upp í eynni, en faðir hans ólst einnig upp hjá Kristínu Hákonardóttur móðurömmu sinni í Brokey eftir andlát kornungra foreldra sinna sem höfðu hafið búskap sinn að Fellsenda í Miðdölum en létust bæði á þrítugsaldri.

Sjórinn var ávallt hugðarefni pabba, enda var hann alinn upp á lítilli eyju og öll samskipti við nágranna voru með bátum. Hann hélt þó ungur suður, lærði einn vetur við Íþróttaskólann á Laugarvatni, þá um tvítugt, en varð fljótt matsveinn á línuveiðurum og togurum, meðal annars á Alden og Rifsnesi.  Vélstjórinn á Rifsnesinu sá aumur yfir umkomulausum ungum manninum, bauð honum heim í mat efst á Lokastíginn og þar með voru örlög hans ráðin, hann kynntist dóttur vélstjórans og þau bjuggu saman alla tíð eftir það, giftust og eignuðust sjö börn. Elstur var Jón Sigurður, fæddur 1941, Pétur Þorbjörn fæddur 1942 og látinn 2013, Arndís Hildiberg fædd 1944, óskírð „Anna“ fædd og dáin 1947, Sesselja fædd 1948, Steinar Jakob fæddur 1950 og loks ég sjálf, fædd 1951.

Pabbi fór í land, lærði málaraiðn og vann við iðnina á meðan aldur og heilsa entust honum. Hann var mjög listfengur, en fékk aldrei að njóta sín sem skyldi, fátæktarbaslið og ómegðin tóku völdin, síðar alkóhólisminn, en lengi voru handverk hans öllum til aðdáunar, ljósakrónur sem hann smíðaði, innskotsborð, jafnvel málað „veggfóður“ í barnaherberginu á bernskuheimilinu að Höfðaborg 65. Ekki fékk ég listrænu hæfileikana í fæðingargjöf, næstelsti bróðir minn fékk þá en hann er nú látinn, sonur minn fékk þá einnig og svo virðist sem að eldri sonardóttir mín njóti sömu hæfileika.  

Faðir minn lést 19. september 1996 og var jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík 3. október sama ár, kirkjunni þar sem hann hafði löngu áður verið sérstaklega kallaður til að laga gyllingarnar  vegna alkunnrar vandvirkni sinnar.

Afkomendur föður míns eru fram að þessu orðin 45, þar af 42 sem enn eru á lífi, Okkar er að minnast hans fyrir allt hið góða sem hann gaf af sér, læra af mistökum hans og færa reynslu hans og minninguna til komandi kynslóða.


0 ummæli:







Skrifa ummæli