sunnudagur, júní 29, 2014

29. júní 2014 - Um greiðslumat


Fyrir áratug síðan fékk ég gert greiðslumat fyrir mig. Ég var þá með kannski 250.000 í útborguð laun á mánuði að meðaltali, lægst um 230.000 á mánuði og útkoman var sú að ég þyldi lán upp á tæpar 16 milljónir. Í framhaldi af því keypti ég íbúð og fékk rúmar 13 milljónir að láni. Síðan er áratugurinn senn liðinn. Síðan er komið eitt fjárhagslegt hrun í samfélaginu, verulegar skattahækkanir og talsverður aukakostnaður vegna viðhalds á blokkinni. Mig minnir að þegar ég keypti íbúðina væri áætlað að ég þyrfti að greiða um 110.000 á mánuði í afborganir, vexti, hússjóð og kostnað.  Þessi upphæð hefur vissulega hækkað talsvert og ég greiði sennilega um  125.000 á mánuði í gjöld af íbúðinni. Ég á samt íbúðina ennþá og enn ekki lent í vanskilum með hana þrátt fyrir hrunið, aukalegan viðhaldskostnað og eyðslufrekan og bilunargjarnan jeppa.

Nú heyri ég af ungri kennslukonu sem getur ekki keypt sér íbúð af því að hún er ekki með nema rúmlega 260.000 í útborguð laun á mánuði og samkvæmt greiðslumatinu hefur hún ekki efni á nema 20.000 króna greiðslum í íbúð á mánuði. Það finnst mér skrýtið. Samkvæmt greiðslumatinu á hún að eyða 74.131 krónu á mánuði í kostnað við ökutæki og 38.985 á mánuði í tómstundir. Það er aldeilis lúxuslíf sem henni er ætlað að lifa. Þegar búið er að ætla henni rándýran bílinn og tómstundirnar, eitthvað af fötum og kostnað við mat og hreinlæti á hún samt 90.000 krónur á mánuði til annarra nota eins og kostnað við íbúð. Eftir útreikning íbúðarlánasjóðs verður þessi upphæð að 20.000 á mánuði.

Ég skal játa það að 260.000 á mánuði eru engin ósköp, en það er samt óþarfi að ætla henni stóran jeppa og áskriftir að öllum sjónvarpsrásum sem einhverja nauðsyn. Kannski lætur hún sér Yaris eða Micru nægja fyrstu árin, en strætó eða reiðhjól til vara og sleppa áskrift að hundrað sjónvarpsrásum með innifalinni Stöð 2.

Mig minnir að ný ríkisstjórn hafi gert kröfur til banka um hertar lánareglur fljótlega eftir að hún komst til valda síðastliðið sumar auk þess að fella niður vaxtabæturnar í síðustu fjárlögum, en samt. Svo illa þenkjandi hefur  hún varla verið þótt slæm sé.

Eitt er þó ljóst. Það er vitlaust gefið í þessu samfélagi og launin eru alltof lág. Líka fyrir kennara sem fengu þó meiri launaleiðréttingu en sumar aðrar láglaunastéttir.    


1 ummæli:

  1. Málið er einfalt. Það er verið að þvinga nýjar kynslóðir inn á leigumarkað, sem fjármagnseigendur þarfnast til að ávaxta sitt pund. Séreignastefnan er fyrir bí. Auðmanna okurleiga er það, sem koma skal.

    SvaraEyða