fimmtudagur, júlí 03, 2014

3. júlí 2014 - Enn um fæðingarvottorð

Eftirfarandi skeyti barst mér í gær frá Þjóðskrá Íslands:

Sæl Anna,

Erindi mitt er að upplýsa þig um að við höfum yfirfarið verklagsreglur okkar um útgáfu fæðingarvottorða m.t.t. til leiðréttinga sem gerðar hafa verið á skráningu einstaklinga.  Í þessu felst að leiðréttingar t.d. á kyni, fæðingardag, kennitölu og jafnvel faðerni eru ekki tilgreindar á fæðingarvottorðum einstaklinga m.ö.o. þá eru gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða leiðréttingu eða breytingu.  Breytt verklag tók í gildi frá og með deginum í dag þ.e. leiðréttingar eru nú ekki tilgreindar á fæðingarvottorðum nema að einstaklingur óski sérstaklega eftir því að þær komi fram.

Fyrir hönd Þjóðskrá Íslands þá biðst ég afsökunar á þeim óþægindum sem fyrra verklag kann að hafa valdið þér.  Vinsamlegast sendu mér póst ef þú óskar eftir endurútgáfu á fæðingarvottorði þínu þér að kostnaðarlausu.

Þessa ákvörðun Þjóðskrár Íslands ber að þakka. Með þessum breyttu verklagsreglum hefur Þjóðskrá viðurkennt sérstöðu þeirra sem kjósa að lifa í friði fyrir áreiti vegna kynvitundar sinnar og um leið er bætt réttarstaða þeirra sem búa erlendis eins og í Bandaríkjunum og víðar. Með tilkynningunni er enginn sigurvegari né neinn sem tapar, heldur er verið að mætast á réttlætisgrundvelli.

Um leið og þessu máli er lokið ber að þakka þeim aðilum sem eru lögfróðir í mannréttindamálum auk Persónuverndar og starfsfólki Þjóðskrár og lít ég svo á að með ákvörðun Þjóðskrár sé máli þessu lokið til hagsbóta fyrir alla sem komu að þessu máli.

2 ummæli: