þriðjudagur, september 09, 2014

9. september 2014 - Reynir Traustason



Árið var 1997. Ég hafði komið til Íslands nokkrum mánuðum áður og sóttist eftir vinnu á Íslandi. Eftir mikið basl og afleysningar á sjó í nokkra mánuði fékk ég starf hjá gömlu Hitaveitunni, starf sem ég hlakkaði til að takast á við eftir að hafa starfað í svipuðu starfi í Svíþjóð í nokkur ár, þ.e. sem vélfræðingur við svokallað varmaorkuver  (kraftvärmeverk).

Fyrstu mánuðirnir voru mér þungbærir. Á hinu saklausa Íslandi þar sem aldrei hafði heyrst af fólki sem hafði farið í kynleiðréttingu varð koma mín sem áfall og er ég mætti til starfa í Reykjavík eftir að hafa verið mánuð að kynna mér starfsemina á Nesjavöllum, voru sumir nýju vinnufélaganna enganveginn tilbúnir til að sætta sig við þessa manneskju sem hafði farið gegn því sem þeir álitu náttúrulögmál.

Ég þvældist um í reiðuleysi í nokkra mánuði, fékk fá verkefni til að sinna og enga fékk ég tilsögnina í nýju starfi. Mér var ítrekað gerð grein fyrir því að ég væri ekki velkomin til Íslands og alls ekki á þennan vinnustað. (Ég vil taka fram að fáir einstaklingar stóðu fyrir eineltinu og alls ekki allir vinnufélagarnir).

Dag einn var okkur úthlutað verkefni úti í einni dælustöðinni. Er ég kom að bílnum, vissulega síðust, var hurðum skellt á mig og mátti ég teljast heppin að ekki var keyrt yfir tærnar á mér þar sem menn óku hlæjandi á braut, en ég fékk nóg. Klukkustund síðar var ég búin að ráða mig til afleysninga á togara austur á fjörðum (Alli ríki réði fólk eftir vilja þess til starfa, en ekki kynvitund), henti inn uppsagnarbréfi og hélt á braut.  Um nóttina ók ég austur á Eskifjörð, um borð í togarann og út á sjó.

Þar sem við vorum á rækjuveiðum útaf Austfjörðum tveimur dögum síðar hringdi síminn um borð. Þar var kominn Reynir Traustason blaðamaður á DV sem spurði mig beint hvort rétt væri sem hann hefði heyrt að ég hefði neyðst til að hætta hjá Hitaveitunni vegna grófs eineltis.  Ég svaraði því engu en viðurkenndi að ég hefði hætt mjög snögglega hjá Hitaveitunni. Jafnframt bað ég Reyni um að gera ekkert úr málinu og alls ekki gera eitthvað með þetta á síðum DV.  Veru minni hjá Hitaveitunni væri lokið eftir skamman tíma og það væri kominn tími til að snúa sér að öðrum jákvæðari þáttum í lífinu. Með þessu lauk samtali okkar.

Reynir var ekki sáttur við þessi málalok. Hann hringdi í starfsmannastjóra Hitaveitunnar og mér skilst að hann hafi byrjað á að tilkynna starfsmannastjóranum að hann væri með forsíðuefni fyrir DV þar sem væri mál mitt.  Starfsmannastjórinn, hinn ágætasti maður, kallaði menn á teppið og las yfir þeim pistilinn og tilkynnti þeim að frekara einelti jafngilti uppsögn (skv frásögn fólks). Síðar hringdi hann í mig og krafðist þess að ég hunskaðist aftur til vinnu. Annars yrði litið á fjarveru mína sem uppsögn.  (Ég man ekki nákvæmlega hvernig hlutirnir voru orðaðir, en einhvernveginn á þessa leið).

Aldrei kom orð um þetta á síðum DV og er það til marks um heilindi Reynis Traustasonar.

Síðan eru liðin rúmlega 17 ár.   Ég er enn við hitaveitustörf, nú hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem var stofnuð við samruna veitustofnana Reykjavíkur 1999 og 2000.  Þeir sem voru mér verstir í upphafi hafa fyrir löngu séð sig um hönd og margir góðir vinir mínir í dag,  flestir komnir á eftirlaun og einhverjir farnir yfir móðuna miklu.  Sama gildir um starfsmannastjórann góða sem og þá sem veittu mér stuðning austur á Eskifirði forðum daga.

Þá er einn ótalinn sem reyndist mér bestur allra. Sá heitir Reynir Traustason fráfarandi ritstjóri DV. Reynir Traustason er ásamt Emil Thorarensen á Eskifirði og Skúla Waldorff fyrrum starfsmannastjóra Hitaveitu og Orkuveitu Reykjavíkur, þeir aðilar sem gerðu mér kleift að búa áfram á Íslandi, reyndar með stuðningi Alfreðs Þorsteinssonar fyrrum formanns stjórna veitustofnana og fleiri fordómalausra aðila á Íslandi.  Þessum mönnum ber að þakka að staða transfólks á Íslandi er jafngóð og raun ber vitni árið 2014 miðað við mörg Evrópulönd.

Hvernig væru þessi mál í dag ef Reynir Traustason hefði ekki tekið alvarlega fréttaskoti til DV um einelti innan Hitaveitu Reykjavíkur vorið 1997?   

4 ummæli:


  1. flott grein. Gott fyrir alla að lesa hana.

    SvaraEyða
  2. gott að lesa,enda vorum við Doddi óvenju sammála um að segja upp DV vegna framkomu við Reyni Traustason,kveðja Bára

    SvaraEyða
  3. Þórunn Ágústa Þórsdóttir.15 september, 2014

    Flott hjá þér að vekja athygli á þessum málum. Sjálf er ég vélstjóri. Var 3ja konan til að ljúka 4 stigi vélstjórnar, kom á eftir Guðnýju Láru og Rannveigu Rist. Ekkert brálæðislega merkilegt finnst mér að mörgu leiti. En hefði samt átt að þykja merkilegt á mörgum stöðum innan okkar bransa. Ég útskrifaðist Desember 2001. Ég bara tók ákvörðun að fara og var svo steinhissa að það væri ekki fleiri stelpur/konur í náminu.
    Maður veit vel hversu erfitt það getur verið innan um karlpeninginn á sumum stundum og sjóararnir ekki þekktir fyrir að draga sig neitt sérstaklega mikið til hlés þegar kemur að því að svara fyrir sig.
    Mér var t.d. sagt af því af samnemanda mínum að hann hefði sko haldið að þeir kvenmenn sem myndu læra Vélstjórn væru allar einhverjar trukkalessur en þarna væri ég sko samt. Ætli ég hafi ekki átt að taka þessu sem hrósi :) Gagnkynhneigð og ekkert sérlega mikil um mig á þeim tíma.
    Ég hef ekki gerst svo fræg að hitta þig. Enda varstu ekki við þegar ég kom í heimsókn í hitaveiturnar/Orkuveituna. En maður heyrði auðvitað mikið um þig í Vélskólanum. Einnig fylgdist ég vel með öllum viðtölum sem ég sá tekin við þig.

    Bestu kveðjur Þórunn Ágústa

    SvaraEyða
  4. Kynleiðrétting er sérkennilegt hugtak. Kynskipti eða kynbreyting eru hlutlausari hugtök. Eða, ef einhvern langar til að vera rakki og fær til þess gerða meðferð verður það tegundarleiðrétting. Æi, nei.

    SvaraEyða