sunnudagur, september 21, 2014

21. september 2014 - Gámaflutningar (mjög spennandi bloggfærsla)


Þú pantar þér pils frá Kína.  Því er pakkað í gám innan við sólarhring siðar, keyrt til hafnar í Nantong, Shanghai eða Hong Kong og mánuði síðar er það komið til Evrópu og síðan í hendur þér og allt gekk ljómandi vel, kannski fyrir utan að þú fékkst það kannski númeri of lítið.

Það er vafalaust hægt að skrifa heila bók um gámavæðingu heimsins, þessa einföldu kassa sem eru staðlaðir og fluttir á milli heimsálfa og sem finnast á sérhverju athafnasvæði og því fleiri sem nær dregur höfnum,  þurrgámar, opentop gámar, hálfgámar, frystigámar og fleiri tegundir.  Flestir eru staðlaðir, 20 eða 40 fet að lengd og átta fet á breidd.  Það fer hinsvegar minna fyrir staðlaðri hæð gáma, standardinn talinn vera 8 fet og sex tommur en hágámar allt að 9 fetum og sex tommum.  Stóri kosturinn við gámana er samt sá að með þeim er hægt að flytja gámana innsiglaða frá lestunarstað til ákvörðunarstaða án rýrnunar í farminum sem var mjög stór þáttur í flutningum fyrri tíma.

Fyrir 30 árum taldist ég sérfróð um frysti- og kæligáma, en með fjarveru minni frá sjó undanfarna áratugi en einnig vegna tölvuvæðingar gámanna er sú kunnátta löngu farin veg allrar veraldar og í dag veit ég síst meira en hver annar góðborgari um frystigáma.

Eins og gefur að skilja út frá öllum þessum tölum um tommur og fet hófst stöðlunin vestur í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar þótt vissulega megi rekja upphafið til áranna fyrir seinni heimsstyrjöld, en Þjóðverjar reyndu að koma á stöðluðum flutningseiningum fyrir stríð með litlum árangri, en meðan á styrjöldinni stóð var talsvert gert af því að flytja hergögn í stöðluðum kössum til Evrópu frá Ameríku. Það var hinsvegar ekki fyrr en 1956 sem fyrrum vörubílstjórinn Malcolm McLean og síðar eigandi flutningafyrirtækis í Bandaríkjunum lét flytja 58 álkassa með vörum frá Newark í New Jersey til Houston í Texas með skipinu Ideal X, en kassarnir voru hannaðir af honum og verkfræðing að nafni  Keith Tantlinger. Tilraunin heppnaðist vel og í framhaldinu reyndi hann að selja þessa hugmynd sína til skipafélaga í Bandaríkjunum en áhuginn reyndist enginn.

Á þessum tíma var McLean orðinn vellauðugur eigandi flutningafyrirtækis og frekar en að láta hugmyndina gleymast keypti hann lítið skipafélag tankskipa sem hann taldi passa vel fyrir þessa flutninga og notaði til flutninga á milli hafna í Bandaríkjunum næstu árin. Árið 1960 breytti hann nafni útgerðarinnar  í Sealand og hóf millilandasiglingar. Víetnamstríðið reyndist bylting á þessu sviði árið 1967, en nokkru áður hóf Sealand ferðir með gáma til Evrópu með takmörkuðum árangri fyrstu árin. Árið 1968 sáu eigendur Hapag-Lloyd kostina við gámana og hófu gámaflutninga og síðan hvert skipafélagið á fætur öðru, í Danmörku var það ÖK sem fyrst skipafélaga á Norðurlöndum tók upp þessa gámaflutninga og ávallt var miðað við þessa stöðluðu gámastærð, 20 eða 40 fet á lengd og átta fet á breidd.

Malcolm McLean seldi fyritæki sitt til R.J. Reynolds Tobacco Co. árið 1969 sem rak fyrirtækið til ársins 1999 er Mærsk Line náði yfirhöndinni  yfir rekstrinum og hefur síðan verið eitt stærsta flutningafyrirtæki í heimi.

Þegar Eimskip lét smíða fyrir sig þrjú skip hjá Ålborg værft árin 1970-1971 voru þau skip ætluð til brettaflutninga með möguleika á flutningi gáma. Þá þegar var gámavæðingin að ryðja sér til rúms og þremur árum síðar eignaðist Eimskip fyrsta sérbyggða gámaskipið, Bakkafoss sem keyptur var notaður frá Þýskalandi. Bakkafoss lestaði 116 teu´s (20 feta gáma) og sjálf eyddi ég góðum árum þar um borð, en stærstu skip Eimskipafélagsins í dag bera allt að 1457 gámaeiningum (teu´s), þ.e. Goðafoss og Dettifoss.  Eftir að Eimskip lét smíða fyrir sig brettaflutningaskipin Dettifoss og Mánafoss
árin 1970-1971 fékk félagið alvarlega gagnrýni á sig fyrir að láta byggja úrelt skip, en sannleikurinn var samt sá að gámar voru rétt að komast í tísku er skipin voru hönnuð. Mærsk stóð sig ekkert betur. Þeirra fyrsta gámaflutningaskip var byggt eftir 1970.

Stærstu gámaskip heimsins í dag bera allt að 18270 teu´s og stærri skip eru í smíðum, en í dag eru um 200 skip í rekstri sem bera yfir 13000 gámaeiningar.

Þetta var fánýtur fróðleikur um skip og gáma.    

 


0 ummæli:







Skrifa ummæli