föstudagur, september 19, 2014

19. september 2014- Clara Mærsk


Það er kannski ekki mitt að koma með bloggfærslur um einstök skip úti í heimi, enda læt ég slíkt venjulega eftir  Ólafi frænda mínum og fyrrum skipsfélaga Ragnarssyni, en hann heldur úti vefsíðu um farskip undir heitinu www.fragtskip.123.is  þar sem hann skráir reglulega allt mögulegt og ómögulegt um farskip íslensk sem erlend.

Í þetta skiptið get ég þó ekki þagað enda er erindið ærið.  Fyrir fáeinum dögum síðan fékk ég með póstinum bókina Mærskbådene II, skibene í åren 1955-1975 eftir Ole Stig Johannesen. Ole Stig hefur verið iðinn við að skrá danska skipasögu síðustu árin og skrifað fjölda bóka um dönsk útgerðarfyrirtæki og skip þeirra af mikilli kunnáttu enda sjálfur gamall vélamaður hjá ÖK og Torm og skrifað sögu beggja útgerða auk Mærsk, Lauritzen og fleiri útgerða. Nú fékk ég semsagt annað bindið af sögu Mærsk skipafélagsins af þremur, en þriðja bindið á ég fyrir og hefi sett glefsur úr því á síðu mína á Facebook.


Þar sem ég hraðfletti í gegnum bókina staðnæmdist ég við flutningaskipið Clara Mærsk.  Það var byggt hjá Kockums skipasmíðastöðinni í Malmö í Svíþjóð og afhent til eigenda sinna vorið 1968, 14.000 tonn að stærð og rúmir 170 metrar á lengd, en við endurbyggingu árið 1981 var það lengt um 26 metra og gert að gámaskipi sem lestaði sem slíkt 1222 gámaeiningar.



Það sem ég staldraði við í sögu skipsins voru þó ekki breytingar á skipinu né heldur það leiðindaatvik er það strandaði skammt undan Jeddah í Rauðahafi árið 1983, heldur afrek sem mun halda sögu skipsins á lofti um lengri tíma.

Skipið var á siglingu frá Bangkok til Hong Kong 2. maí 1975 er það kom að sökkvandi skipi frá Víetnam og náði 3628 flóttamönnum um borð. Þess má geta að fáeinum dögum áður hafði gamla einræðisstjórnin í Saigon (Síðar Ho-Shi-Minh borg)  fallið í hendur herja Norður-Víetnama og mikill fjöldi Suður-Víetnama flúði land á hvern þann hátt sem hægt var og margir sjóleiðina. Næstu dagana var nóg að gera fyrir áhöfn Clöru Mærsk. Skipið var yfirfullt af hungruðum og særðum flóttamönum og það þurfti að gefa þeim vatn og að borða auk þess sem hjúkra þurfti þeim sem særðir voru.  Eftir um 60 tíma siglingu kom skipið loks til Hong Kong þar sem flóttamennirnir höfnuðu í flóttamannabúðum og fengu margir síðar flutning til Norðurlandanna þar á meðal Íslands þar sem þeir hafa reynst hinir nýtustu þegnar.













Eins og gefur að skilja olli þessi björgun heimsathygli og hér er frétt í dagblaðinu Vísi frá 5. maí 1975 um þetta afrek:


http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=239063&pageId=3262106&lang=is&q=Clara+M%E6rsk

Skipið var í rekstri hjá A.P.Möller A.S. til 1988 er það var selt til Kína og rifið tíu árum síðar.   



0 ummæli:







Skrifa ummæli