þriðjudagur, desember 13, 2011

13. desember 2011 - Klara Klængsdóttir

Þegar ég var send í sveit veturinn 1958-1959 lenti ég í sjö ára bekk í Brúarlandsskóla og þar tók á móti mér Klara Klængsdóttir sem kennt hafði yngstu nemendunum við skólann allt frá því er hún hóf kennslu við skólann nýorðin 19 ára gömul haustið 1939. Hún kenndi mér einnig í átta ára bekk, en síðan tók Birgir Sveinsson við því erfiða verkefni að koma mér til manns sem og öðrum nemendum við Brúarlandsskólann í Mosfellssveit.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um Klöru. Hún var ein þeirra sem umluktu sig hógværð í lífinu, var aldrei áberandi en sinnti nemendum sínum af kostgæfni hverjum árganginum á fætur öðrum í marga áratugi, bæði almennri kennslu og leikfimi. Hún var íþróttamanneskja, vígði Varmárlaug er hún var formlega vígð 1964 og einnig vígði hún Lágafellslaug um fjórum áratugum síðar þá orðin háöldruð.

Sjálf átti ég lítil samskipti við Klöru eftir að ég fór til Reykjavíkur og í aðra skóla. Þó hitti ég hana haustið 2000 er við bekkjarsystkinin komum saman í tilefni af því að liðin voru 40 ár frá því Birgir Sveinsson hóf að kenna okkur þá nýkominn frá kennaranámi og hluti af fagnaði okkar var að heimsækja Klöru á elliheimilið. Næst hitti ég hana er við bekkjarsystkinin héldum upp á það að liðin var hálf öld frá því við byrjuðum í skóla haustið 2008. Að sjálfsögðu tók Klara þátt í fagnaðinum með okkur og fannst mér hún þá öllu hressari en átta árum áður.

Nú er Klara öll 91 árs að aldri og verður hún jarðsungin frá Lágafellskirkju í dag. Öll eigum við fyrrum nemendur hennar í marga áratugi í Brúarlandsskóla og síðar í Varmárskóla henni mikið að þakka  og kveðjum yndislega manneskju. 

P.s. Myndin var tekin haustið 2008  í kjallara Brúarlandsskóla
er við hittumst ásamt fyrstu kennurum okkar


0 ummæli:Skrifa ummæli