mánudagur, desember 19, 2011

19. desember 2011 - Jólalögin

Það var örugglega fyrsta eða annað sumarið mitt í Svíþjóð. Ég var einhversstaðar á göngu nærri heimili mínu og það var midsommarafton eða midsommardagen (man ekki hvort) og í nágrenninu var fólk að dansa í kringum majstången (midsommarstången) og lagið sem fólk dansaði við var danska þjóðlagið „Göngum við í kringum einiberjarunn“. Ég komst samstundis í íslenskt jólaskap þótt á miðju sumri sé, en hefi ekki þolað þegar ég hefi heyrt þetta sumarlag á jólum eftir það.

Nú er hávertíð jólalaganna enda veit ég sem er að eftir jóladag munu mörg þessi fallegu lög þagna og ekki heyrast aftur fyrr en í nóvember á næsta ári. Sum þessara laga mega vissulega alveg missa sín, lög eins og Jól alla daga. Það er skelfileg tilhugsun ef það verða jól alla daga því þá þarf að finna einhverja aðra hátíð til breyta hversdagslífinu. Því á ég þá frómu ósk að þessi ósk söngvarans og höfundar textans verði aldrei að veruleika.

Önnur jólalög og jólasálmar eru mörg hver í góðu lagi. Þó er ég ósátt við hvernig markvisst er reynt að þurrka út jólasálm allra jólasálma hvar sem hann kemur fyrir. Árið 1984 eignaðist ég kassettu með þeim Dolly Parton og Kenny Rogers þar sem „Heims um ból“ eða „Silent night“ var á lagalistanum. Mörgum árum síðar eignaðist ég hljómdisk með sömu söngvurum og sama nafni, en þá var Heimsumból horfið af listanum og eitthvert allt annað lag komið í staðinn þótt diskurinn væri að öðru leyti hvað innihald snertir og kassettan góða forðum. Nu hefi ég heyrt að víðar sé reynt að láta Heims um ból hverfa úr minningunni í tilraunum heiðingja til að afkristna jólin og færa til fornra hefða. Sjálf hefi ég engan áhuga fyrir slíku.

Jólalögin eru svo samofin minningunum að erfitt er að ímynda sér aðventuna án gömlu jólalganna hvort sem þau eru jólalög að uppruna eður ei. Diskurinn sæli með Dolly og Ken á þar geymslupláss í hjartanu þar sem ég keypti kassettuna vestur í Bandaríkjunum í desember 1984 áður en haldið var til hafs á ný og enn einna jóla á sjó. Kassettan var því hið einasta sem við náðum af jólatónlist það árið þar sem við vorum fjarri ströndum á leið okkar frá Ameríku til Íslands.

Nær allur fiskiskipaflotinn er nú í höfn um jólin eins og hefur verið til siðs í nokkur undanfarin ár og er það vel. Með hinu nýja fyrirkomulagi eru aðstæður flestra sjómanna orðnar gjörbreyttar, en þeim er kannski best lýst með laginu sem samið er af sjómönnunum sjálfum, þ.e hljómsveitinni Roðlaus t og beinlaust sem skipað er áhöfnarmeðlimum á Kleifarberginu undir forsöng Björns Vals Gíslasonar skipstjóra og nú alþingismanns.

Fátt lýsir betur lífi fiskimannsins í dag en einmitt þetta ágæta lag sem heitir „Í friði og ró“ Því miður finn ég það ekki á You tube og verður því að leita þess á öðrum slóðum.        


0 ummæli:Skrifa ummæli