laugardagur, desember 31, 2011

31. desember 2011 - Eftir sextugsafmælið

Einhverjum ánægjulegasta afmælisdegi ævinnar er lokið. Veislan sem haldin var heima hjá mér var fjölmenn, fólk frá bernsku til eftirlaunaaldurs mættu, fjölskyldumeðlimir, vinir sem ég hefi kynnst í gegnum árin, nágrannar, skólafélagar, göngufélagar, æskufélagar, vinnufélagar, skipsfélagar. Á tímabili földu kisurnar mínar sig undir rúmi furðu losnar yfir öllum hamaganginum. Þá er ljóst að ég hefi nóg að lesa á næstunni enda bættist talsvert við af nýjum bókum í safnið sem og blóm og aðrar gjafir. Þótt rauðvín og hvítvín kláruðust var talsvert eftir af veitingum er síðasti gesturinn kvaddi löngu eftir miðnætti, nóg til af öli og ísskápurinn enn hálffullur af öðrum veisluföngum.

Framanaf degi var aðallega um að ræða kaffiveitingar, kaffi og pönnukökur auk annarra léttra veitinga, en eftir því sem leið á eftirmiðdaginn bættust hvítvín, rósavín og rauðvín við veitingarnar, en síðar um kvöldið hvarf kaffið fyrir öli  eða sterku sem merkilegt nokk var ósnert að lokum. Greinilegt að sterkt áfengi gengur ekki lengur í Íslendinga.

Af skepnuskap mínum setti ég áminningu á göngugrind nágrannanna og stillti henni upp innan við anddyrið í húsinu og reyndi þannig að skapa létta stemmningu fyrir teitinu. Að öðru leyti var teitið mjög rólegt, enginn hávaði frá glymskratta eða útvarpi, einungis gott spjall fólks af ólíkum uppruna sem skemmti sér saman.

Einni manneskju verð ég að þakka sérstaklega fyrir  hve afmælið gekk vel fyrir sig. Ég kynntist Birnu Björgvinsdóttur í Svíþjóð árið 1991. Hún var þá búsett í Järna í Södertälje kommun ásamt ungum einkasyni sínum sem lést fyrir fáeinum árum. Við urðum góðir vinir, en árið 1994 urðu vinslit af mínum völdum. Vináttan var ekki endurnýjuð fyrr en við vorum báðar fluttar til Íslands en hún flutti heim árið 2002. Á síðustu árum hefi ég ávallt getað leitað til hennar þegar ég hefi þurft á aðstoð að halda og nú stóð hún sig eins og hetja, lagaði viðbit og pinnamat, hreindýrakæfu og osta, en gaf sig í veg þegar veislan stóð sem hæst.

Ég sé fram á skemmtilegan áratug framundan uns ég mun ná eftirlaunaaldri, ekki síst með öllu því góða samferðafólki í lífinu sem kom og heilsaði upp á mig í sextugsafmælinu.  


0 ummæli:







Skrifa ummæli