föstudagur, desember 23, 2011

23. desember 2011 - Enn um kæsta skötu

Þegar ég var til sjós í gamla daga ákvað ónefndur Vestfirðingur og skipsfélagi minn að verka sína eigin skötu eitt haustið. Hann verkaði hana og setti ofan í fiskikassa og fylgdist svo reglulega með hvort allt væri ekki í samræmi við hefðirnar. Þegar hann var á frívakt og örugglega í koju áttu aðrir skipsfélagar hans það til að skreppa út í horn þar sem kassinn var geymdur og míga í kassann með skötunni.  Þegar kom að jólum tók pilturinn skötuna, pakkaði henni og tók með sér vestur á Ísafjörð og át ásamt fjölskyldu sinni á Þorláksmessu. Þegar hann kom um borð eftir áramótin hafði hann á orði að betri skötu hefði hann aldrei smakkað.

Annar vinnufélagi minn er Vestfirðingur og étur ekki kæsta skötu. Sagt er að hann hafi verið gerður útlægur frá Vestfjörðum vegna þessa þótt ekki vilji ég fullyrða neitt í því sambandi. Ljóst er þó að hann er fluttur suður á mölina og lætur sér fátt um finnast berist fnykurinn af skötunni að vitum hans.

Svona menn eins og sá síðarnefndi eru að mínu skapi. Þeir þora að fara út fyrir rammann og bjóða viðbjóðslegum hefðum byrginn, rétt eins og íbúar sumra Miðausturlanda sem hafna áti á heilasúpum eða sænskir vinir mínir sem býður við lútfisk eða surströmming og færeyskir sem vilja ekki skerpikjöt. Sjálf komst ég ekki hjá fnyknum öll þessi ár sem ég var til sjós og saltfiskur og skata voru á borðum hvern einasta laugardag.

Félagi minn sem hafnaði skötunni er þess meiri í augum mínum að hann þorði að bjóða afturhaldssömu samfélagi byrginn. Þetta er þess mikilvægara sem sífellt fleiri meðvirkir Íslendingar þvinga sjálfa sig til að éta þennan viðbjóð helst svo sterkan að svíður í augun og tennur losna þegar hans er neytt. Þess má geta að meðvirkir Íslendingar fögnuðu afrekum útrásarræningjanna allt þar til þeir voru búnir að keyra íslenska þjóð í þrot.

Ég er viss um að þessir sömu meðvirku Íslendingar séu líka einangrunarsinnar eins og Norður-Kóreumenn og andvígir Evrópusambandinu. Ég ætla ekki að elta skoðanir þeirra eða matarvenjur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli