laugardagur, september 14, 2013

14. september 2013 - Slæmar flugstöðvar?

Einhver tjáði sig um Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli fyrir skömmu síðan og taldi hann meðal lélegri flugvalla. Ekki man ég frá orði til orðs hver sagði hvað í þessu samhengi en samkvæmt ummælunum var Leifsstöð ekki í miklum metum hjá viðkomandi.

Sjálf hefi ég óskaplega lítið út á Leifsstöð sem slíka að setja. Það má vissulega gagnrýna af hverju verslanir þar inni eru ekki allar opnar allan sólarhringinn enda hefur umferðin um Keflavíkurflugvöll aukist svo mikið að Leifsstöð er að sprengja allt utan af sér. Þannig voru fjölmargar verslanir lokaðar þegar ég átti leið um miðnætturbil á útleið fyrir skömmu. Á móti kom einstaklega ljúf framkoma allra er ég kom til baka nokkrum dögum síðar á háannatíma, jafnt framkoma afgreiðslufólks í komufríhöfn sem tollvarða og öryggisvarða. Reyndar hefi ég mjög sjaldan þurft að kvarta yfir þjónustunni í Leifsstöð allt frá því ég fór fyrst þar um skömmu eftir opnun hennar og fram á þennan dag, þá helst of hárri gjaldtöku á bílastæðum en alls ekki framkomu starfsfólks.

Svona góð framkoma er ekki hjá öllum á öllum flugvöllum. Ég átti leið um Kastrup flugvöll á á leið minni heim frá Danmörku. Er ég kom að öryggishliðunum stillti ég mér upp við hlið fimm en sá fljótlega eftir þeirri ákvörðun minni því öryggisvörður þar hamaðist við að gefa fyrirskipanir til væntanlegra flugfarþega eins og SS foringi að reka gyðinga í gasklefa. Hann öskraði á allt og alla og virtist alls ekki ráða við hlutverk sitt og farþegar sáu sumir ástæðu til að setja ofan í við hann en aðrir snéru sér annað. Hann hlustaði ekki og hélt áfram tilraunum sínum til að reka fólk í dilka eins og sláturfé.


Þetta var á háannatíma á Kastrup, en ég átti erindi í verslanir á flugvellinum og ég kom við í einni slíkri. Þar sem ég beið þolinmóð eftir afgreiðslu og afgreiðslustúlkan virtist niðursokkin í tölvuna fór ég að kíkja eftir hvað hún væri að gera svona merkilegt í tölvunni að hún hefði ekki tíma fyrir viðskiptavinina og það reyndist mjög tímafrekur tölvuleikur. Þá missti ég áhugann fyrir vörunum í þeirri verslun. Ég ákvað að fá mér léttan snæðing og pantaði léttan málsverð. Það gekk hratt og vel fyrir sig en þegar kom að því að borga var löng biðröð af því að afgreiðslustúlkan var að gera upp annan kassann áður en hún komst sjálf í mat og á meðan var einungis einn kassi í notkun.


Yfirmenn á Kastrup flugvelli hafa oft gefið út yfirlýsingar þess efnis að nú sé stefnt að því að gera Kastrup að besta flugvelli í heimi. Því miður virðast þeir hafa gleymt að segja starfsfólkinu frá þessu því góð flugstöð verður aldrei betri en starfsfólkið sem vinnur þar.


1 ummæli:

  1. Kella komið ila sofin á Kastrup eða?

    SvaraEyða