miðvikudagur, september 18, 2013

18. september 2013 - Tveir frændur frá Lokastíg 28

Eyjólfur Þorbjörnsson
Árið 1922 fluttu afi minn og amma í nýbyggt hús sitt að Lokastíg 28 í Reykjavík. Þá þegar var fyrsta barn þeirra hjóna fætt, Jakobína Steinunn sem hét í höfuðið á systur ömmu minnar og eiginmanni hennar. Eftir að þau hjón fluttu í litla húsið sitt eignuðust þau átta börn til viðbótar en móðir mín var þriðja barn þeirra, fædd 1924 og lést 2003. Uppáhaldsfrændinn var þó að öllum öðrum ólöstuðum, sjöunda barnið af níu börnum afa míns og ömmu, Eyjólfur Guðni Þorbjörnsson veðurfræðingur fæddur 28. október 1933 í húsi foreldra sinna.

Afi minn og amma voru dæmigerð fátæk verkamannafjölskylda, amma mín var heimavinnandi en Þorbjörn afi minn sjómaður sem settist á skólabekk á fimmtugsaldri og lærði vélstjórn og hélt síðan áfram störfum á sjó allt til æviloka og lést á frívaktinni um borð í Heklunni árið 1965, en kona hans lést árið 1949 úr fjölskyldusjúkdómnum heilablóðfalli einungis 48 ára að aldri. Eyjólfur var einasta barn Þorbjörns og Arndísar sem gekk menntaveginn, þó ekki fyrr en eftir einhver ár úti á vinnumarkaðnum þar sem hann starfaði sem aðstoðarmaður á Veðurstofunni. Hann fékk áhuga fyrir náttúruvísindum og eftir stúdentspróf hélt hann til Noregs þar sem hann lærði veðurfræði, en starfaði alla tíð á veðurstofunni eftir að námi lauk, ýmist á Keflavíkurflugvelli eða í Reykjavík.


Margt var það sem gerði Eyjólf einstakan í hópi systkina sinna. Hann var lengi einhleypur áður en hann eignaðist fjölskyldu og gaf sér því meiri tíma til að sinna ættingjum sínum nær og fjær en gengur og gerist. Hann var ekki háður áfengi eins og margir ættingja hans og það sem okkur börnunum þótt mest um vert var að hann hafði sex fingur á annarri hendinni og sá húmoristi sem hann var var hann ávallt reiðubúinn til að lofa okkur að dást að þessu undurverki sem okkur fannst. Síðar lét hann fjarlægja aukafingurinn sem gleymdist flestum.


Þegar Eyjólfur var nálægt fimmtugu kvæntist hann Guðrúnu Lárusdóttur sem áður hafði verið gift frænda okkar, syni Steinunnar og Jakobs og gekk börnum hennar í föðurstað. Hann hélt samt áfram að vera uppáhaldsfrændinn sem ávallt var hægt að leita til og vildi öllum vel. Rithöndin var gullfalleg og hann var óvenju listrænn þótt ekki fengi hann að njóta sín á listabrautinni. Hann var bókaormur og ættfræðigrúskari og mörg kvöldin ræddum við ættfræði og reyndum að gera betur vitandi að seint verður fullkomnun náð í sannleiksgildi ættfræðinnar.


Þegar starfslok Eyjólfs nálguðust ákváðu hann og Dúna kona hans að flytja búferlum til Málmhauga í Svíþjóð þar sem dóttir Dúnu var búsett. Á þeim árum bjó ég sjálf í Svíþjóð, kannski einmana og hálfgildings einangruð frá fjölskyldu minni þar sem ég bjó í Stokkhólmi. Það varð mér því fagnaðarfundur er þau hjónin höfðu samband við mig þar sem ég bjó 600 kílómetra í burtu og ættarböndin voru hnýtt sem aldrei fyrr og aftur reyndust þau mér yndislega er þau studdu mig í baráttu minni við heilbrigðisyfirvöld sem vildu hvorki sjá mig né heyra í baráttu minni fyrir réttu kynferði.


Eftir að ég hafði unnið sigur í baráttu minni í Svíþjóð hélt ég heim. Eftir það fækkaði þeim skiptum sem ég heimsótti Eyfa og Dúnu ekki síst eftir að þau fluttu frá Málmhaugum til smábæjar nærri Oscarshamn, kom síðast til þeirra haustið 2009.  Við héldum þó ávallt tölvusambandi.


Dúna lést úr krabbameini 27. febrúar 2013. Eftir andlát hennar hvatti ég Eyfa til að pakka saman og flytja heim. Hann var einmana og fjarri öllum fjölskyldumeðlimum, en hundarnir hans voru honum of dýrmætir til að hann yfirgæfi þá án þess að tryggja framtíð þeirra. Eftir að hann veiktist sjálfur í sumar og ljóst var hvert stefndi fór fjölskyldan af stað og reyndi að tryggja sem ánægjulegasta ævikvöldið. Það gekk ekki sem skyldi, en er læknar gáfu heimild til að flytja Eyfa heim til Íslands var drifið í heimflutningi, hann sendur heim með flugi frá Stokkhólmi, en eftir heimkomu var ekið með hann rakleitt á Borgarspítalann þar sem hann fékk inni á herbergi með útsýni upp á Veðurstofu. Þar lést hann um eftirmiðdaginn 19. júlí einungis sólarhring eftir heimkomu sína frá Svíþjóð og var jarðsunginn 30. júlí frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og fékk legstað við hlið eiginkonu sinnar í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Þegar Eyjólfur lést lauk þar með sögu einnar kynslóðar því öll systkini hans voru látin er hann lést.


Þessi dagur, 30. júlí 2013 var um leið síðasti dagurinn sem ég hitti bróður minn Pétur Þorbjörn Kristjánsson sem einnig var fæddur að Lokastíg 28 í Reykjavík 20. mars 1942. Minningin um hann er síst minni en Eyjólfs enda áttu þeir frændur og félagar svo margt sameiginlegt sem ekki er hægt að slíta í sundur. Fjallað verður um Pétur næstu dagana.  



2 ummæli:

  1. hello my name is Christian Blomqvist from bockara sweden and i search for legal inheritors for Thorbjörnsson, Eyjolfur Gudni can you help in some way?

    SvaraEyða
  2. hello i seek of an legal inheritan of Thorbjörnsson, Eyjolfur Gudni. I live in Bockara, Sweden /Christian Blomqvist

    SvaraEyða