miðvikudagur, september 04, 2013

4. september 2013 - Seawise Giant



Seawise Giant var stærsti farkostur sem smíðaður hefur verið, hér sem Jahre Viking undir norskum fána


Eftir að ég skrifaði pistilinn um nýju risagámaskipin hjá Mærsk var ég spurð um hver hefði verið stærstu skip sem smíðuð hafa verið. Málið er einfalt. Það var Seawise Giant.

Árið 1967 þegar ljóst var að Suezskurðurinn yrði ekki opnaður aftur á næstu árum eftir sex daga stríðið hófst mikill uppgangur í smíði risastórra tankskipa sem gætu flutt sem mestan farm í hverri ferð til Evrópu. Tankskipin urðu stærri og stærri og þegar komið var fram á áttunda áratug aldarinnar og Yom Kippur stríðið hafði aukið enn á ófriðarbálið við botn Miðjarðarhafs voru pöntuð nokkur risastór tankskip sem fluttu um og yfir hálfa milljón tonna olíu í hverri ferð. Við þessar aðstæður pantaði grískur skipaeigandi 418.000 tonna tankskip frá Sumitomo Heavy Industries í Japan. Skipið var lengi í smíðum og varð þekkt undir smíðanúmerinu 1016, en við reynslusiglingu skipsins árið 1979 reyndist það ekki uppfylla kröfur hins gríska kaupanda og var samningnum því rift. Það fékkst nýr kaupandi frá Hong Kong að nafni C.Y. Jong en er hann kom inn í kaupin voru frönsku risatankskipin af Batillus gerð komin í rekstur og voru stærstu skip í heimi. Yong vildi hafa sitt skip enn stærra og lét lengja skipið svo það yrði enn stærra en frönsku skipin. Að sögn var það lengt um  80 metra.  Með þessu móti varð það lengsta skip sem smíðað hefur verið eða 458 metrar en bar örlítið meira en Batillus skipin, var 564.000 dwt á móti 554.000 til 555.000 dwt hjá fjórburunum.

Þessi  risaskip, Seawise Giant, frönsku skipin Batillus, Bellamya, Pierre Guillaumat og Prairal og loks Líberíuskipin Esso Atlantic og Esso Pacific voru öll yfir hálfri milljón tonna að stærð og yfir fjögur hundruð metrar á lengd. Með samningi um opnun Suezskurðarins og síðan stækkun hans 1980 urðu öll þessi skip óhentug. Þau komust ekki í gegnum Suezskurðinn og þau komust ekki í gegnum Ermarsundið sökum mikillar djúpristu. Þrjú frönsku skipanna voru rifin fljótlega eftir opnun Suez, en hið fjórða selt og rifið 2003, en Esso skipin voru í rekstri áfram til ársins 2002 er þau voru rifin


Hinn franski Batillus eftir að lokið var smíði hans. Til samanburðar er litli báturinn við hlið hans álíka stór og Hamrafellið, eitt af stærstu skipum sem hafa verið í eigu Íslendinga.


En snúum okkur aftur að Seawise Giant.  Skipið sem bæði var hið lengsta og breiðasta sem flotið hafði á heimshöfunum var áfram í rekstri í eign C.Y Jong til ársins 1988. Þá geisaði stríð á milli Írak og Íran og 14. maí 1988 er skipið var á siglingu um Hormuz sund fulllestað olíu frá Íran varð það fyrir írösku tundurskeyti og sökk. Síðar sama ár lauk stríðinu og var skipinu þá komið á flot, fékk þá nafnið Happy Giant og gert við það í Singapore. Árið 1991 keypti Norðmaðurinn Jörgen Jahre skipið og fékk það þá nafnið Jahre Viking og sett undir norskan fána. Hann rak skipið til ársins 2004 er First Olsen Tankers keyptu skipið, gáfu því nafnið Knock Nevis og notuðu það eftir það sem fljótandi birgðastöð í Dubai en það var áfram undir norskum fána til árisins 2009 er skipið var tekið úr rekstri og selt í brotajárn undir heitinu Mont.  Síðan var því siglt til Indlands þar sem það var rifið á árinu 2010.

Með niðurrifi skipsins lauk löngu tímabili þar sem tankskip voru lengstu skipin á höfunum, en þau verða áfram hin burðarmestu, enda allnokkur skip í rekstri sem bera um 400.000 tonn þótt þau séu mun auðveldari í rekstri en gömlu risaskipin. Burðargeta stærstu gámaskipanna er hinsvegar aðeins um 200.000 tonn svo þau eiga langt eftir í að ná hinum tröllvöxnu tankskipum.     

Hér sést ágætlega munurinn á stærstu skipagerðum heims Hér er Seawise Giant sýnt sem Knock Nevis.





0 ummæli:







Skrifa ummæli