laugardagur, desember 13, 2014

13. desember 2014 - Skólaheimsóknir í kirkjuEnn og aftur byrjar þessi angist trúlausra vegna kirkjuheimsókna skólabarna og þeir fara á límingunum vegna þess að skólabörnum er boðið í kirkjur.  Ekki ætla ég að æsa mig útaf þessu. Þegar ég var barn var okkur aldrei boðið í kirkju á skólatíma, hvorki í Brúarlandsskóla/Varmárskóla né í Laugarnesskóla. Vissulega fengum við Nýja testamentið á silfurfati frá Gideonsfélaginu, en það var einasta innrætingin sem ég varð fyrir af hálfu kirkjunnar og fékk ég þó tíu í kristinfræði í 12 ára bekk (eða var það í ellefu ára bekk, ég man það ekki, en tíu fékk ég eitt árið) 

Eitt árið fótbrotnaði uppáhaldskennarinn okkar á skíðum og var frá kennslu í sex vikur. Fyrstu vikurnar fengum við frí en svo hljóp séra Bjarni sóknarprestur (faðir Bjarka sagnfræðings og bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ) í skarðið og reyndist okkur betri en enginn, en ekki minnist ég þess að hann hafi reynt að hafa áhrif á okkur vesæla nemendurna eða innræta okkur trúna fremur en aðrir sveitungar okkar í Mosfellssveitinni.

Í dag sit ég hér heima hnuggin og græt örlög mín. Hugsið ykkur ef ég hefði fengið trúarlega innrætingu í Lágafellskirku á sínum tíma. Þá hefði ég kannski lifað upp til væntinga sveitunga minna og farið í prestaskólann og gerst prestur í Mosfellsprestakalli í stað þess að hanga í leiðindum á vaktinni yfir heitavatnsborholum í sömu kirkjusókn. 

Ég efa ekki að ég hefði orðið ágætis prestur enda var ég uppnefnd presturinn af sveitungum mínum í æsku.


0 ummæli:Skrifa ummæli