fimmtudagur, desember 25, 2014

25. desember 2014 - Jól á sjó


Frægt var atvik sem kom fyrir á aðfangadag jóla árið 1970. Flutningaskipið Helgafell hélt úr höfn í Reykjavík um eftirmiðdaginn á aðfangadag jóla til þess eins að liggja í reiðuleysi í höfn í Noregi í einhverja daga áður en unnið var við skipið ef mig misminnir ekki.  Til þess að bæta gráu ofan á svart fórust tveir skipverjar í bílslysi á Keflavíkurveginum á leið til Reykjavíkur er komið var aftur til Íslands tveimur mánuðum síðar og annar þeirra sá aldrei nýfæddan son sinn sem fæddist í febrúar 1971. Nokkur blaðaskrif urðu vegna þessa máls er skipið hélt úr höfn á aðfangadag jóla og sárin ýfðust enn frekar eftir banaslysið á Keflavíkurveginum.  Fleiri dæmi voru um að skip héldu úr höfn á aðfangadag jóla þótt ekki kunni ég að nefna þau, en almennt var litið á slíkt sem mannvonsku og og tel ég að menn hafi hugsað sig tvisvar um áður en farið var úr heimahöfn á aðfangadag jóla eftir þetta.

Ellefu jólum eyddi ég á sjó eða í höfnum erlendis auk einna þar sem ég kom til heimahafnar á jóladag. Þessi jól voru misjöfn, stundum skemmtileg og jákvæð, stundum ekki. Það var t.d. gaman um borð í Bakkafossi um jólin 1976 þar sem ég var að leysa af í fyrsta sinn sem 1. vélstjóri undir stjórn Guðjóns Vilinbergssonar yfirvélstjóra og ég var enn í Vélskólanum þar sem margir nemendur sjómannaskólanna voru að leysa af í jólafríinu.  Þar á meðal var einn háseti sem var í stýrimannaskólanum og sem ég kynntist síðar, en það var ömurlegt að fylgjast með því í talstöðinni tíu árum síðar er hann og skipsfélagar hans  voru að berjast fyrir lífi sínu er Suðurlandið fórst, en við í öruggri höfn í Riga á sama tíma.  Það var ekki gaman er við komum eitt sinn heim til Reykjavíkur 29. desember eftir þriggja mánaða útilegu til þess eins að fara aftur úr höfn eftir sólarhringsdvöl í Reykjavík. Þá var heldur ekkert gaman að fylgjast með hásetunum hífa trollið sundurrifið úr festu á togara klukkan sex á aðfangadagskvöld jóla er ég var að leysa af þar um borð meðan ég var í Vélskólanum.

Jólatúrar Guðjóns Vilinbergssonar eru svo ævintýri útaf fyrir sig, en honum tókst að vera 26 jól á sjó á starfsferlinum að eigin sögn, en því er væntanlega lokið með því að hann er orðinn rúmlega sjötugur og ætti því að geta horft ánægður til baka á starfsferilinn og notið jólanna með fjölskyldunni þótt starfsorkan sé enn með ágætum.  


Jólin 2014 eru ákaflega ljúf fyrir mig. Ég er löngu hætt til sjós í föstu starfi og engin vakt fyrr en milli jóla og nýárs og svo um áramótin. Ég hefi vissulega oft verið á vakt á jólum og áramótum en það er allt annað mál að geta hitt fjölskylduna og vinafólkið milli vakta eða eftir vaktina og engin dramatík fólgin í slíku, kannski ef frá er talið atvik þar sem ég þurfti að kalla út mann á bakvakt fyrir fáeinum árum vegna bilunar í fráveitu og hann eyddi jólunum í að moka ógeði í einni hreinsistöðinni. Við erum enn að gantast með þetta þegar við hittumst.

Á miðnætti á aðfangadagskvöld jóla fylgdist ég með því er tvö skip Eimskipafélagsins héldu úr höfn í Reykjavík með stefnu á Færeyjar. Áhafnir Goðafoss og Lagarfoss höfðu fengið að njóta aðfangadagskvölds jóla í faðmi fjölskyldunnar áður en haldið var úr höfn og er það vel og þessu ber að fagna. Ég reikna með að áhafnir Dettifoss, Brúarfoss og Selfoss muni fagna gamlárskvöldi á sama hátt áður en lagt verður úr höfn aðfararnótt 1. janúar, en Brúarfoss og Selfoss eru á heimleið frá Evrópu á aðfangadagskvöld jóla. Helgafell er í höfn í Reykjavík og Arnarfell verður væntanlega heima um áramótin.

Nú ræður mannlegi þátturinn í starfsmannamálum skipafélaganna og er það vel og öllum fyrir bestu.  


0 ummæli:







Skrifa ummæli