laugardagur, apríl 11, 2015

11. apríl 2015 - HjásvæfurDoppa með kettlingana daginn sem þeir fæddust.
Í dag eru komin tíu ár síðan þær komu í heiminn austur í Hveragerði og hafa verið hluti af heimilislífi mínu frá því átta vikum síðar.  Kötturinn Doppa eignaðist fimm kettlinga nokkru eftir að fósturfjölskylda hennar flutti austur fyrir fjall og Doppa kunni að meta nýfengið frelsið, gaut kettlingunum nokkru síðar og það lagðist þegar á mig sú skylda að taka að mér tvo af kettlingunum.  Til að gæta alls jafnvægis valdi ég fress og læðu sem hrædd við hið ókunna hlutu nöfnin Kolbeinn og Tárhildur er þau komu á framtíðarheimili sitt tæpum átta vikum síðar.  Ekki gat ég hugsað mér að kalla minni kisuna Grenjuskjóðu eins og börnin á fæðingarheimilinu kölluðu Tárhildi, en gælunafnið Væla festist þó fljótlega við hana því hún hefur verið kvartsöm með afbrigðum alla tíð.  Í fyrstu heimsókninni til læknis reyndist svo Kolbeinn kapteinn einnig vera læða og fékk því snarlega nafnið Hrafnhildur enda svört eins og nóttin. 

Tárhildur og Hrafnhildur fyrsta daginn á framtíðarheimilinu.
Hrafnhildur og Tárhildur hafa síðan verið stjórnendur heimilisins, ráða hér öllu og stjórna mér með harðri hendi. Tárhildur hefur að auki ákveðið að rúmið mitt sé einnig rúmið hennar þótt þær hafi eigið herbergi sem þær nota sjaldan. Hrafnhildur er hógværari, velur sér svefnstað eftir hentugleikum, en ávallt þar sem er þægilegt að lúra. Þær eru samt skilningsríkar og í þessi fáu skipti sem ég hefi verið lasin hefur ekki liðið á löngu uns tvær kisur hafa skriðið upp í til mín og lagst sínhvoru megin við mig eins og til að halda á mér hita, eða var það til að sýna mér hlýhug? 

Tárhildur að monta sig á svölunum
Báðar hafa kisurnar fengið flugferðir af svölunum en handriðið er í sex metra hæð.  Ég viðurkenni að í öðru tilfellinu var það sennilega mér að kenna því ég hafði verið nýbúin að lakka svalahandriðið um morguninn og svo fór að rigna áður en ég fór á vaktina um kvöldið.  Tárhildur hefur sennilega stokkið upp á blautt handriðið um kvöldið og ekki varað sig á gljáandi lakkinu því er ég kom heim af vaktinni morguninn eftir mátti heyra óhljóðin í henni við garðdyrnar löngu áður en ég kom að húsinu.  Hrafnhildur fékk einnig flugferð af svölunum en ég uppgötvaði það eftir skamma stund og reyndist hún þá óslösuð í garðinum eins og reyndar Tárhildur einnig þegar hún fór fram af.
Hrafnhildur ættfræðispekúlant
Lengi vel var Hrafnhildur dæmigerð útikisa, fór út snemma á morgnanna og kom inn aftur á kvöldin og nægði þá að hrista lyklakippuna og þá flýtti hún sér heim.  Hún átti það til að týnast, lokaðist eitt sinn niðri í þvottahúsi í næsta húsi og eitt sinn lokaðist hún einhversstaðar inni í tvo daga, en skilaði sér svo heim aftur. Þá gerði hún sig svo heimakomna hjá nýfæddum kettlingum í nágrenninu að húsmóðirin á því heimili sá ástæðu til að hringja í mig og biðja mig að sækja kisu.  Hún hætti hinsvegar að stunda útiveru eftir að hún hafði eitt sinn farið út á þrettándanum eftir að hafa verið innilokuð frá því um jól, en vegna veðurs var lítið um flugelda á gamlárskvöld það árið.  Hún fékk taugaáfall er flugeldaskothríðin var í gangi um kvöldið og skilaði sér ekki heim aftur fyrr en um miðja nótt og hefur síðan verið ákaflega vör um sig utandyra. 


Tárhildur

Þær eiga sér óvini. Sá versti heitir Tómas, fannhvítur fress sem býr á jarðhæðinni, duglegur að sleikja sig upp við mig, en vill gera Hrafnhildi eitthvað sem hún vill ekki veita honum. Hún er fyrir bragðið ákaflega vör um sig gagnvart honum en í þeim tilfellum sem báðar kisurnar mínar eru í garðinum kemur Tárhildur systur sinni til varnar og snýst gegn óvininum af hörku og gefur ekkert eftir þótt hún sé hálfu minni en hann.En nú eru þær orðnar tíu ára sem er nálægt sextugu í kattaárum, hæfilega rosknar og myndu örugglega fá sér sherrý á kvöldin ef slíkt væri í boði.

Hrafnhildur elskaði kristal þegar hún var ung.


0 ummæli:Skrifa ummæli