fimmtudagur, apríl 23, 2015

23. apríl 2015 - Hitaveitustörf



Það eru komin 25 ár frá því ég hóf fyrst störf við hitaveitu, í upphafi við Orkuveitu Stokkhólms við kraftvärmeverket í Hässelby, síðar hjá Hitaveitu Reykjavíkur, nú Orkuveitu Reykjavíkur.

Þegar ég flutti til Svíþjóðar byrjaði ég starfsferilinn þar hjá Scania-verksmiðjunum, fyrst við tilkeyrslu og prófun 11 lítra dieselvéla í vörubíla, en eftir skamman tíma í stóru verksmiðjunni var mér boðið að vinna við lokafrágang og prófanir á marine og industri mótorverkstæði fyrirtækisins sem staðsett var annars staðar í Södertälje en stóra verksmiðjan.  Ég var ekki mjög hrifin af verksmiðjuvinnunni í stóru verksmiðjunni. Hópsálarlífið fór illa í mig og mér fannst fáránlegt að sjá menn stilla sér upp við stimpilklukkuna löngu áður en þeir þeir máttu stimpla sig út og virtust að auki gera í því að sleppa sem léttast frá vinnunni með sem mestan bónus og komust stundum upp með slíkt, en sem betur fer ekki alltaf eins og þegar gæðaeftirlitið stóð þá að verki og þeir misstu bónusinn um tíma á eftir.  Þá var ástandið mun skárra í Weda þar sem deildin fyrir marine og industri var niðurkomin og miklu þægilegra vinnuumhverfi.  En það var samt eitthvað sem vantaði auk þess sem launin voru lítið hærri en í stóru verksmiðjunni sem þýddi í reynd launalækkun þar sem sú vinna var öll framkvæmd í dagvinnu, en ekki á vöktum.  Annað vandamál var að ég sem nýlega hafi komin frá Íslandi hafði aldrei komist á sænskunámskeið, enda öll slík yfirfull af innflytjendum úr suðri.

Vorið 1990 fékk ég loks boð um að koma í stöðupróf í sænsku svo hægt væri að ákveða hvar ætti að staðsetja mig á væntanlegu sænskunámskeiði. Ég mætti í prófið og niðurstaðan var sú að ég þyrfti ekki að fara á sænskunámskeið.  Þetta varð mér léttir um sinn þótt ég hefði vissulega þurft á námskeiði að halda, en um leið opnaði þessi niðurstaða mér leiðir inn á allan sænska vinnumarkaðinn.

Fáeinum dögum síðar rakst ég á auglýsingu í Platsjournalen þar sem auglýst var eftir vélfræðingum við tvö orkuver í Stokkhólmi, annars vegar Hässelbyverket sem er í útjaðri Stokkhólms í norðvestri, hinsvegar Farstaverket í suðri. Þótt Farstaverket væri öllu nær Södertälje talsvert sunnan Stokkhólms þar sem ég bjó, var ég ekki alveg yfir mig hrifin. Í Farstaverket var sorpi nefnilega breytt í varma og raforku og ég sá fyrir mér í huganum spikfeitar rottur hlaupandi um sílóin og sótti um vinnu í Hässelbyverket og fékk vinnuna.

Ég sagði upp hjá Scania með löglegum fyrirvara og hætti þar 20. apríl.  Þremur dögum síðar, þann 23. apríl 1990 byrjaði ég hjá Stockholm Energi við Hässelbyverket á kvöldvakt. Eftir tvær kvöldvaktir fór ég í sex daga vaktafrí áður en ég fór á næturvaktir og mér fór að líða eins og blómi í eggi.  Launin voru sæmileg og vinnufélagarnir voru þægilegir og vildu allt fyrir mig gera.  Ef ég gerði mistök fékk ég alla þá aðstoð sem ég þurfti og ef ég sagði einhverja vitleysu voru menn ekkert að kippa sér upp við slíkt. Einustu stóru vandamálin voru þau að ég bjó enn í Södertälje og var rúma tvo tíma á leið til vinnu og aðra tvo frá vinnu, það lagaðist þó þegar ég flutti til Jakobsberg um haustið.  Hitt var að vaktformaðurinn var mikill stuðningsmaður fótboltafélagsins Djurgården sem féll fyrir íslenska  fótboltafélaginu Fram um haustið og Christer yrti ekki á mig í viku eftir tapið, kannski vegna þess að ég fagnaði óþarflega mikið á vaktinni.  Er ég þó venjulega ekki meðal stuðningsmanna Fram.

Rúmlega sex árum síðar sagði ég upp störfum hjá Stockholm Energi og flutti til Íslands. Um það má deila hvort þetta hafi verið stærstu mistök lífs míns, en heimþráin hafði orðið örygginu yfirsterkari. Ég átti fjölskyldu og börn á Íslandi, í Svíþjóð átti ég góða vini og þegar ég stóð frammi fyrir valinu, fjölskyldan og Esjan eða öryggið og vinirnir í Svíþjóð, féll ég fyrir Esjunni.

Ég sótti um hjá Hitaveitu Reykjavíkur og eftir nokkurra mánaða bið fékk ég starfið. Um það má deila hvort það hafi verið til góðs eða ills, en þáverandi starfsmannastjóri Hitaveitunnar og síðar Orkuveitunnar, Skúli Waldorff,  var mér betri en enginn og hefi ég rætt það á öðrum vígstöðvum.  Enn er ég að hjá Orkuveitunni, nú eins og síðustu tólf árin í stjórnstöð Orkuveitunnar. Kannski tekst mér að halda út fram að sjötugu eða lengur í vinnu því þrátt fyrir að Orkveita Reykjavíkur sé ekki í fyrsta sæti hjá mér eftir yndislega tíma hjá Orkuveitu Stokkhólms, er gott að vera hjá Orkuveitunni og góðir félagar alltumkring af öllum kynjum. 

Það er samt skemmtilegt að segja frá því að ein erfiðasta nóttin hjá Orkuveitu Stokkhólms var aðfararnótt 23. apríl 1995, nákvæmlega fimm árum eftir að ég hóf þar störf. Þá um nóttina yfirhitnaði múffa í háspennustreng í fjarvarmagöngum hjá Granholmstoppen og orsakaði bruna og rafmagnsleysi í hluta Stokkhólmsborgar. Ég var alla nóttina á þeysingi á milli Akalla og brunastaðar, aðstoða slökkvilið og að setja inn fleiri kerfi sem höfðu leyst út vegna brunans og ég var gjörsamlega búin á sál og líkama er ég komst heim um morguninn eftir mikla vinnu um nóttina.  Ég var enn dauðþreytt um kvöldið er ég hélt á Karólinska sjúkrahúsið í Solna (Stokkhólmi) þar sem ég gekkst undir aðgerð til leiðréttingar á kyni morguninn eftir.

Mynd: Tommy Pedersen



0 ummæli:







Skrifa ummæli