laugardagur, apríl 04, 2015

4. apríl 2015 - MosfellskirkjaUm daginn var ég á ferð í bænum og rakst á gamlan æskufélaga úr Mosfellsdalnum og og áttum við gott samtal saman. Bjarki Bjarnason bókmenntafræðingur og prestssonur frá Mosfelli er litlu yngri en ég, en Þórunn heitin systir hans var bekkjarsystir mín í barnaskóla að Brúarlandi og síðar í Varmárskóla.  Bjarki benti mér á að nú um páskana væri komin hálf öld frá því Mosfellskirkja hin nýja var vígð og skömmu síðar voru fyrstu fjögur börnin fermd í kirkjunni, öll jafnaldrar mínir og fyrrum bekkjarfélagar.  Fimmta bekkjarsystkinið úr Mosfellsdalnum, dóttir Nóbelsskáldsins var ekki fermd í Mosfellskirkju enda alin upp að kaþólskum sið. Sjálf hafði ég yfirgefið Mosfellssveitina nokkru áður og fermst haustið 1964 í Laugarneskirkju í Reykjavík.

Mosfellskirkja er ákaflega merkileg kirkja með mikla sögu þótt ekki sé hún gömul á mælikvarða kirkna. Hún er eiginlega reist utan um gamla kirkjuklukku, klukkuna sem var í gömlu Mosfellskirkju en sem var rifin á nítjándu öld og efniviðurinn notaður á öðrum vettvangi, en það tókst að bjarga klukkunni og eru til sögur af því er hún var falin í fjóshaugnum á Hrísbrú svo ekki yrði hún brædd niður til annarra nota.  Skemmtilegustu frásögnina af þessu er að finna í uppáhaldsbókinni minni, Innansveitarkróniku Halldórs Laxness en þar segir frá Stefáni Þorlákssyni (1895-1959) hreppstjóra í Mosfellssveit ásamt Guðrúnu vinnukonu að Hrísbrú og fleiri góðum manneskjum.  Þótt ég hafi einungis dvalið í Mosfellsdalnum í innan við fimm ár, eða frá sjö til tólf ára aldurs hefi ég ávallt litið á Mosfellssveitina sem mínar æskustöðvar í „harðri samkeppni“ við hinn vígða prest sveitarinnar Bjarna Sigurðsson, föður áðurnefndra Bjarka og Þórunnar og þriggja systkina þeirra.

Ég get ekki sagt að kynni mín og Stefáns Þorlákssonar hreppstjóra í Reykjadal hafi verið mikil, en mætti þessum svipmikla manni stöku sinnum þessa fáu mánuði sem hann átti eftir ólifaða eftir að ég kom í Mosfellsdalinn í apríl 1959 en það var ljóst að allir sem til hans þekktu, báru mikla virðingu fyrir honum.  Í samræmi við erfðaskrá Stefáns var í framhaldinu hafist handa við kirkjubyggingu að Mosfelli og var ný kirkja vígð þann 4. apríl 1965 og tvö börn skírð sama dag, en nokkru síðar gengu fyrstu fermingarbörnin til altaris.

Mosfellskirkja fékk svo nýjan kirkjugarð þegar kom að þúsaldamótum, en fyrstur manna sem borinn var til grafar þar eftir vígslu garðsins var vinur minn Andrés Ólafsson (1938-1999) garðyrkjubóndi að Laugabóli í Mosfellsdal, en hann fæddist, lifði og dó í dalnum góða.  Það var vissulega ekki eftirsóknarvert fyrir ungan mann eins og Adda að verða fyrstur til grafar, en enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Sjálf get ég vel hugsað mér að aska mín verði lögð til hinstu hvílu í kirkjugarðinum að Mosfelli eftir minn dag, en það er vonandi langur tími til síðasta dags hvað mig snertir.

Með þessu hvet ég alla til að lesa Innansveitarkróniku sem upphaflega var gefin út 1970 í minningu manns sem trúði varlega á almættið, en ánafnaði kirkjunni öllu sínu eftir sinn dag.

1 ummæli:

 1. Þetta er fróðlegur og skemmtilegur pistill og hæfir deginum vel. Páskadagur er risinn og afmælis- og hátíðarguðsþjónusta verður í Mosfellskirkju í dag.

  Í Innansveitarkroniku segir:


  Í brakaþerri á háum hól
  himins frægu túna
  brosir mæt við morgunsól
  Mosfellskirkja núna.

  Kær kveðja, segir Bjarki Bjarnason.

  SvaraEyða