föstudagur, apríl 03, 2015

3. apríl 2015 - Föstudagurinn langi


Ljósmyndari Ómar Óskarsson/Mbl.

Þá er hann runninn upp einu sinni enn þessi leiðinlegasti dagur ársins og ég fer að leita í minningarnar.  Í hinni alltumlykjandi kristni bernskunnar þótti dagurinn jafnvel enn leiðinlegri en í dag. Það mátti ekkert gera nema fara í kirkju og hlusta á messu í útvarpinu  eða lesa í bók og helst þurfti maður að ganga um með leiðindasvip og vorkenna einhverjum kalli sem dó fyrir nærri tveimur árþúsundum.  En hugarflugið var samt ágætlega virkt þótt ekki væri það alltaf í samræmi við raunveruleikann.

Það var margt sem var óskiljanlegt í fræðunum.  Á hverju ári var vesalings Jesús festur upp á kross þar sem hann dó og reis upp tveimur dögum síðar og þá var því fagnað með páskaeggi, hinu einasta jákvæða við páskana einungis örfáum mánuðum eftir að hann fæddist og okkur færðar gjafir af því tilefni. En svo var annað sem var enn óskiljanlegra.  Það voru stríð útum allan heim en samt sendi enginn her til Palestínu, sem fengið hafði nýtt nafn sem ómögulegt var að bera fram, til þess að bjarga manninum frá því að vera pyntaður og hengdur upp á kross og ég sá fyrir mér að ég yrði bara að grípa í taumana og frelsa Jesú frá krossinum á föstudaginn langa þegar ég yrði stærri, sitja fyrir gyðingum þar sem þeir röltu upp á Golgata með Jesú og krossinn og ná honum frá þeim og frelsa hann.

Ekki var hægt að spyrja fullorðna fólkið sem gerði grín að hugsunum mínum og sögðu í besta falli að ég myndi skilja þetta þegar yrði ég stærri og ég ákvað að halda þessu dagdraumum fyrir mig. En Jesú vaknaði svo upp frá dauðum tveimur dögum síðar að venju og og steig til himna nokkru síðar, en næstu jól á eftir fæddist hann aftur og Guð sendi  jólasveinana til byggða til að skemmta okkur á jólaballinu, enda voru þeir ekki enn farnir að gefa í skóinn á þessum árum.

Svo varð ég stærri og komst að sannleikanum en um leið glataðist hluti af barnatrúnni, hefur ekki endurheimst og aldrei fór ég í prestaskólann.  Árin liðu og spikfeitur og hrognafullur þorskur tók við af krossfestingunni sem merking páskanna og varð að kærkominni hvíld frá striti daganna á vetrarvertíð eða þá að góðum mat ef verið var á sjó.  Það breytti ekki því að föstudagurinn langi hélt áfram að vera langur og leiðinlegur ef dvalist var í landi á páskum.  Þó minnist ég þess er við vorum einhverju sinni í Hamborg á páskum og borgin virtist fara á blindafyllerí í tilefni páskanna, ólíkt skemmtilegra en heittrúarlandið Ísland.  Síðar varð páskahátíðin að nokkrum aukakrónum í launaumslagið ef unnið var um páskana en leiðindin héldu áfram síst betri en áður.

Í dag er ég eldri og þroskaðri og aðeins farin að meta föstudaginn langa.  Einhver vottur af kristinni trú situr enn í mér eins og minning um bernskuna og örlítil von um að eitthvað bíði mín á efsta degi og biblíusögurnar vakna til lífsins í minningunni.  Meira að segja hefi ég tekið þátt í að lesa passíusálmana í kirkju á þessum degi með góðum árangri.  Ég er þó ennþá á þeirri skoðun að trúarkreddur og helgi páskanna séu óþarflega ströng og að það sé öllum fyrir bestu að létt verði á regluverkinu og lokunarfarganinu svo ekki þurfi að brjóta lögin með bingóspili á Austurvelli.


0 ummæli:







Skrifa ummæli