laugardagur, febrúar 28, 2009

28. febrúar 2009 - Um söfnunarlíftryggingar

Haustið 2000 bankaði sölumaður einn upp á hjá mér og bauð mér svokallaða söfnunarlíftryggingu sem hann fullyrti að væri miklu betri og öruggari en svokallaður séreignarsparnaður. Þótt ég véfengdi sum orða hans, virti ég orð hans og samþykkti að skrifa mig fyrir svokallaðri Certus söfnunarlíftryggingu, en þó einungis að upphæð 5000 krónur á mánuði og ég hóf greiðslur inn á þennan reikning í ársbyrjun 2001.

Svo liðu árin. Það sem tekið var af VISA reikningnum mínum hækkaði eitthvað í tímanna rás og var komið í tæpar 7000 krónur á mánuði á síðasta ári, en af einhverjum ástæðum fékk ég ekki fyrsta yfirlit fyrr en þremur árum síðar, þ.e. í ársbyrjun 2004. Er ég leit yfir fyrsta yfirlitið varð mér ljóst að „gleymst“ hafði að segja mér frá því að fyrstu greiðslurnar rynnu beint í vasa sölumannsins án þess að neitt kæmi inn til uppbyggingar eigin sjóðs. Þá hafði Alþjóðafjárfestingarmiðlunin sem ég hafði keypt af umrædda líftryggingu runnið inn í Alþjóðalíftryggingafélagið og enn síðar rann það inn í eitthvað sem heitir Kaupþing Líf. Með því að umrætt ákvæði hafði „gleymst“ sem og að senda mér yfirlit fyrstu tvö árin, kom villan ekki í ljós fyrr en sjóðurinn var farinn að dafna að nýju, þótt enn vantaði mikið upp á að ná inngreiddum peningum í formi fjármagnstekna árið 2004.

Ég var orðin sæmilega sátt við umrædda söfnunarlíftryggingu árin 2006 og 2007, en þá hækkaði inneign mín talsvert meira en nam innborgunum, en þó ekki meira en svo að í ársbyrjun 2008 hafði ég greitt samtals um 470 þúsundir í sjóðinn sem en sjóðurinn hafði þá vaxið á sjö árum í 612 þúsundir.

Á síðasta ári greiddi ég um 70 þúsund í sjóðinn, en ekki var innheimt síðustu mánuði ársins vegna bankahrunsins. Í gær fékk ég loksins yfirlit yfir stöðu mína og reyndist hún komin niður í 359 þúsund. Samkvæmt því hefði ég betur geymt aurana mína undir koddanum öll þessi ár því að um 540 þúsunda króna heildarinngreiðslur voru orðnar að 359 þúsundum, semsagt að hreint tap af þessari söfnunarlíftryggingu er orðið um 180 þúsund krónur.

Ég held að ég biðji lögfræðing fjölskyldunnar um að krefjast skýringa á þessari miklu rýrnun og jafnframt að innheimta þessa peninga á þann hátt að það verði sem sársaukaminnst fyrir mig og mína. Það er að minnsta kosti ljóst að ég mun ekki eiga frekari viðskipti við Kaupþing líf í framtíðinni eða frá þeim degi sem þessir aurar verða komnir úr bankanum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli