fimmtudagur, febrúar 05, 2009

5. febrúar 2009 - Minning um mann



Einn örfárra skipverja á Þorkeli mána sem treystu sér til að halda áfram til sjós eftir hamfarirnar í Nýfundnalandsveðrinu mikla 1959 var Jóhann Ásgrímur Guðjónsson háseti (1923-1990) sem hélt áfram störfum á sjó í mörg ár eftir þetta og var hann enn á skipinu þegar ég var þar um borð seinnihluta ársins 1967. Er hann lést árið 1990 ritaði Þorsteinn Gíslason loftskeytamaður minningargrein um Ásgrím þar sem hann komst svo að orði um fyrstu sjómennskureynslu sína sem háseti á Þorkeli mána:

Það hefur ekki alltaf verið auðvelt líf fyrir unga menn að byrja sín fyrstu störf á sjó og þannig var það líka með mig. Þegar búið var að senda mig niður til að gefa kjölsvíninu og sækja lykilinn að togklukkunni, var ég ófáanlegur til að gera nokkurn hlut. Þá kom til mín einn af dekkinu og sagði: "Þú skalt ekki vera að trúa þessum lygurum. Trúðu mér." Síðan var farið í kaffi og þegar inn í borðsal var komið kúrði ég mig upp að mínu tryggðatrölli, Jóhanni Ásgrími Guðjónssyni. Þegar kaffitímanum lauk var farið aftur út á dekk og þá sagði Ási við mig: "Komdu hérna, góði minn," og teymdi mig framundir hvalbak og þar lét hann mig blóðga stórufsa, láta blóðið renna í fötu og taka frá lifrina, þar sem kokkurinn, Tóti Mey, ætlaði að búa til blóðmör og lifrarpylsu!

P.s. Myndina af Þorkeli mána tók Valdimar Ó. Jónsson loftskeytamaður nokkrum árum fyrir atburðina á Nýfundnalandsmiðum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli