laugardagur, febrúar 07, 2009

8. febrúar 2009 – Slysadagar


Í sumum ríkjum er þrettándi dagur mánaðarins talinn sérstakur óhappadagur beri hann upp á föstudag. Ekki veit ég hvað er hæft í því, enda sjálf aldrei lent í neinu misjöfnu föstudaginn þrettánda. Íslensk þjóð ætti frekar að hugleiða sunnudaginn áttunda febrúar sem sérstakan ólánsdag í sögu þjóðarinnar.

Sunnudagurinn 8. febrúar 1925 hefur löngum verið kenndur við Halaveðrið mikla. Þá fórust 68 manns á Halamiðum með tveimur togurum. Auk togaranna sem fórust, urðu margir togarar einnig fyrir miklu tjóni af völdum veðurs og ísingar á miðunum norður af Vestfjörðum. Þá fórust fimm manns í veðurofsanum í landi þar af tvö börn í Kolbeinsstaðahreppi sem höfðu farið að líta eftir hestum.

Sunnudagurinn 8. febrúar 1959 hefur einnig fengið sitt kenninafn, Nýfundnalandsveðrið mikla. Í því veðri fórst togarinn Júlí frá Hafnarfirði og með honum 30 manna áhöfn, aðallega ungir menn og 40 börn urðu föðurlaus. Í þessu sama veðri lentu nokkur önnur íslensk skip miklum hrakningum og ber þá helst að nefna togarann Þorkel mána frá Reykjavík þar sem yfirvélstjórinn brenndi í burtu yfirísaðar bátadavíðurnar til að létta yfirbyggingu skipsins þar sem skipið var við að velta yfirum vegna veðursins og ísingar. Í sama veðri fórust einnig skip frá Kanada og Spáni við Nýfundnaland.

Síðustu skipstaparnir sem áttu sér stað um þetta leyti voru að vísu ekki á sunnudegi, heldur mánudagskvöldið 7. febrúar 2005 þegar flutningaskipinu Jökulfelli hvolfdi eigi allfjarri Færeyjum og sex af ellefu manna rússneskri áhöfn skipsins fórust með skipinu, en þyrla kom að skipinu á hvolfi klukkan 22.48 um kvöldið og menn þá syndandi í sjónum. Um klukkan 01.30 aðfararnótt þess áttunda febrúar var staðfest að skipið væri sokkið.

Í dag er liðin hálf öld frá Nýfundnalandsveðrinu mikla, þessum versta hildarleik íslenskra sjóferða og slysasögu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Við skulum biðja til almættisins að svona harmafregnir heyri sögunni til.

P.s. Þess má geta að myndin að ofan var tekin af Júlí GK-21 sama dag og skipið hélt frá Reykjavík í örlagaferð sína áleiðis á Nýfundnalandsmið 31. janúar 1959.


0 ummæli:







Skrifa ummæli