mánudagur, nóvember 12, 2012

12. nóvember 2012 - Kostnaður við prófkjör

Að undanförnu hafa dunið á okkur auglýsingar frá einum frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi. Ekki veit ég hve mörgum milljónum hann eyddi í framboðið, en þær hljóta að hafa verið margar samanber sjónvarpsauglýsingarnar sem dundu á saklausum áhorfendum þess miðils og þær eru ekki gefins.

Ég efast ekki um að frambjóðandinn sé hinn ágætasti maður og ekki verri en margir sem ríða röftum í þeim flokki. Hinsvegar varð árangurinn ekki eftir væntingum og ljóst að frambjóðandinn mun ekki fá líklegt þingsæti eftir kosningarnar í vor og mun vera í hópi þeirra sem fengu færri atkvæði en nægja til líklegs eða öruggs þingsætis í vor. Hvar átti svo að fá peningana til að greiða kostnaðinn við framboðið þegar ljóst er að launin fyrir þingmennskuna hefði engan veginn nægt til að greiða fyrir auglýsingarnar.

Þetta minnir mig á annan frambjóðanda sem óð fram á svið stjórnmála á öðrum vígstöðvum  í upphafi Samfylkingarinnar fyrir síðustu aldamót með hógværð, en síðan með miklu brambolti, heilsíðuauglýsingum í blöðum, barmmerkjum og auglýsingastand í Kringlunni í prófkjöri fyrir kosningarnar 2003 og aftur haustið 2006 fyrir kosningarnar 2007. Kostnaðurinn var geigvænlegur og mörgum blöskraði hve langt var gengið í kynningunni á þessum eina frambjóðanda. Honum var hafnað af kjósendum. Hann bauð sig síðan fram fyrir önnur stjórnmálasamtök vorið 2007, en náði engum árangri fremur venju.

Sömu sögu má nefna um einstöku frambjóðendur sem hæst létu í framboði til stjórnlagaþings fyrir tveimur árum. Þeim var refsað sem hæst létu með fjáraustri á meðan þeir frambjóðendur sem læddust með veggjum komust miklu lengra án þess að eyða krónu í að auglýsa sjálfa sig.

Það er vitað að frambjóðendur hafa ákaflega lítinn möguleika á að tryggja sér þingsæti í prófkjörum ef þeir hafa ekki verið stöðugt í kastljósi ljósvakafjölmiðlanna um fleiri ára skeið eins og fjölmiðlafólk og aðrir sem vegna starfa sinna hafa verið áberandi á sjónvarpsskjám Íslendinga.  Fyrir hina gildir reglan að vinna vel að hugsjónum sínum og stöðugt um margra ára skeið áður en lagt er í framboð. Jafnvel þá getur mikill fjáraustur spillt fyrir framboðinu.

Er ekki kominn tími til að frambjóðendur í einstaklingsframboðum, prófkjörum, flokksvali og forvali haldi að sér höndunum í kostnaði við framboð sín og noti frekar tímann til að kynna sig og málefni þau sem þeir standa fyrir með því að vinna þeim brautargengi á öllu kjörtímabilinu?


0 ummæli:







Skrifa ummæli