miðvikudagur, nóvember 07, 2012

7. nóvember 2012 - Minningar


Stundum gæli ég við minningarnar. Ég á mér minningar og ekki allar góðar. Ég á mér lífsreynslu og þrátt fyrir margar góðar minningar verður eins og að slæmu stundirnar í lífinu verði ofaná í minningunni.

Ég rifja upp vertíðina 1968. Hún var slæm. Einu sinni þurftum við að vaka í meira en 36 tíma við að draga netatrossur og greiða úr flækjunum eftir versta óveður sem komið hafði á Íslandsmiðum í mörg ár þar sem margir létu lífið. Þremur vikum síðar þurftum við að leita týndra sjómanna sem aldrei skiluðu sér heim. Eftir vertíðina fengum við ekki einu sinni uppgert því útgerðin var á hausnum. Það var ekki mikil rómantík yfir þessu.

Ég rifja upp atvik árið 1969 þar sem litlu munaði að við færum niður með bátnum, en einhver forsjá vakti yfir okkur og við komumst heil til hafnar að matsveininum frátöldum sem slasaðist eftir að brotsjórinn hafði brotið allt ofandekks. Þetta hefði þótt rómantískt í dægurlagatextum, en ekki á meðan við óttuðumst um líf okkar þótt við hefðum öll lifað af að lokum.

Ég rifja upp erfiða daga vorið 1978 þegar við vélstjórarnir á togaranum þurftum að vinna í þrjá sólarhringa samfellt, við erfiða vélaviðgerð á flatreki. Það var rómantískt að geta ekki lagt frá sér verkfærin og varahlutina öðruvísi en að skorða þá og sjóbinda.

Það er kannski óþarfi að rifja upp ævintýrið þegar brytinn ræsti mig eldsnemma að morgni með orðunum "Eldur í vélarúmi" Umræddur bryti heldur því enn fram að ég hafi farið framúr sér fullklædd þegar hann hljóp niður stigann. Ekki ætla ég að véfengja hótelstjórann á Holtinu.

Þá má ekki gleyma ævintýrinu þegar ég var vélstjóri á fraktara og við þurftum að vera einstaklega prúð við Doxu sem var aðalvélin svo hún fengist til að svara okkur og fara í gang þegar hún átti að fara í gang. Þá má ekki gleyma því þegar maður þurfti að skríða á milli sjóðheitra strokkanna til að skipta um eldsneytisloka sem voru staðsettir fyrir miðjum strokkunum á vél sem kom framleiðandanum á hausinn eftir framleiðslu á tíu vélum. Dægurlagatextinn sagði frá vélstjóra á fraktara sem þurfti að drekka stíft svo héldust uppi á honum buxurnar, en við höfðum ekki tíma til að drekka svo við gætum sinnt öllu viðhaldinu.
Þetta var yndislegur tími, árin mín til sjós, eða hvað?

Ég var heppin.  Þrátt fyrir rúmlega tvo áratugi til sjós drukknaði ég aldrei. Ég lenti aldrei í strandi og aldrei sökk skip undan mér og ekkert þeirra brann ofan af mér. Ég fékk vissulega illt í fingur öðru hverju og einu sinni var ég send heim frá Hamborg með brotna öxl.  En ég lifði þetta af með örin og lífsreynsluna og enn er ég að, nú í stjórnstöð Orkuveitu Reykjavíkur.

Við erum sex sem vinnum þarna á vöktum, öll með svipaðan bakgrunn, gamlir sjójaxlar sem höfum pissað í saltan sjó í áratugi. Okkur þykir vænt um starfið okkar og erum ánægð þegar við höfum staðið okkur vel í neyðartilfellum eins og átti sér stað aðfararnótt mánudagsins þegar seltan eftir síðasta storm orsakaði fleiri tíma rafmagnsleysi  og bilanir í hitaveitukerfi.

Kannski eru vondu minningarnar ekki svo slæmar eftir allt. Þær herða okkur og þegar við horfum á öll kerfin okkur hrynja út, brosum við út í annað, hringjum í fólkið á bakvakt sem einnig er gegnumsaltað í gegnum reynsluna og dundum okkur síðan við að endursetja kerfin okkar.

Við yljum okkur við minningarnar og gamla sjómannasöngva sem gefa okkur falskar minningar og við njótum þeirra. Þetta var jú okkar líf og við lifðum því og lifum enn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli