fimmtudagur, nóvember 15, 2012

15. nóvember 2012 - Petula Clark

Stundum er ekki hægt annað en að rifja upp minningar og njóta þeirra í botn og gildir einu þótt hálfur fimmti áratugurinn sé liðinn frá því umrædd atvik áttu sér stað.

Ég kom fyrst til útlanda snemma árs 1967 á togara frá Hafnarfirði sem hét Surprise GK 4. Fyrsta og önnur siglinganna voru til Bremerhaven, en svo kom ég til Grimsby í hinni þriðju. Allt var þetta í samræmi við viðbjóðslegar táningsminningarnar, en er ég kom í fyrsta eða annað sinn til Grimsby vorið 1967 voru allir glymskrattar kráanna uppfullir af nýjasta tónlistarsmellinum og This is My Song með söngkonunni Petulu Clark hljómuðu á öllum krám og fljótlega einnig í óskalagaþætti sjómanna í Ríkisútvarpinu á Íslandi og margir minntust lagsins Down Town sem Petula Clark hafði sungið  tveimur árum áður. 

Síðan eru liðin 45 ár. Ég er löngu hætt til sjós þótt ég skreppi enn einn og einn túr. Surprise er að mestu horfinn þar sem hann bar beinin (stálið) í fjörunni við Landeyjasand, en Petula Clark er enn að. Í dag, 15. nóvember 2012 er hún áttræð og enn hress og enn að störfum. Betur ef við værum öll jafnhress og Petula Clark eftir meira en hálfa öld af tónleikum og dásemd.


0 ummæli:







Skrifa ummæli