sunnudagur, nóvember 18, 2012

19. nóvember 2012 - SjóferðabækurÞegar ég var að byrja til sjós var nauðsynlegt að fá sjóferðabók. Þar var skráð inn vera mín í skipsrúmi undirrituð af skipstjóra og stimpluð af lögskráningarstjóra. Lögskráningarstjóri átti einnig að gæta þess að þegar viðkomandi sjómaður mætti til lögskráningar niður í litla kofann við Reykjavíkurhöfn, en síðar í Tollhúsinu, að hann legði fram gögn til sönnunar á réttindum sínum til þess starfa sem krafist var til viðkomandi starfa á skipinu. Þetta var síðan skráð í sjóferðabók viðkomandi. Þetta var allt mjög formlegt og lágu við refsingar ef útaf yrði brugðið, til dæmis ef einhver væri á sjó án lögskráningar. Hjörtur (faðir Jóhanns skákmeistara) og félagar hans hjá lögskráningunni voru vinir okkar og vildu allt fyrir okkur og útgerðirnar gera og voru ekki að síta það þótt einhvern vantaði smátíma til að uppfylla réttindakröfur eða hefði aðeins minni réttindi en áskilið var. Smám saman hertust þó reglurnar og um leið varð lögskráningin einfaldari.

Á síðustu árum hefur orðið einfaldara að lögskrá. Ég var sem fulltrúi í Siglingaráði viðstödd þegar Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra opnaði nýjan lögskráningarvef Siglingastofnunar fyrir tveimur árum. Með þessu færðist lögskráningin endanlega um borð í skipin og um leið og einhver var lögskráður mátti sjá á augabragði hvort viðkomandi hefði réttindi og hvenær þau rynnu út. Þannig var sjóferðabókin í reynd orðin óþörf fyrir sjómenn á íslenskum skipum og full ástæða til að fagna einfaldleikanum og nánast fullkomnu lögskráningarkerfi hvað varðaði réttindi, starfstíma og lífeyrisrétt.


En var málinu lokið? Hvað um alþjóðasiglingar?


Einhverntímann minnist ég þess er Hilmar Snorrason skipstjóri og skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna hélt þrumuræðu í Siglingaráði yfir einskisnýtum sjóferðabókum. Íslensku sjóferðabækurnar væru svo lélegar að hvaða klaufi sem var gat auðveldlega falsað þær, tekið út blaðsíður sem honum þótti miður og bætt við öðrum eftir því sem þurfa þótti. Fyrir bragðið væru þær ónýtar erlendis og vissi hann nokkur dæmi þess að Íslendingar væru eftirbátar annarra þjóða vegna skorts á löglegum sjóferðabókum. Í alþjóðasiglingum væri sjóferðabókin nánast jafngild vegabréfum og mikilvægari þegar siglt væri um önnur menningarsvæði. Hið einasta sem vantaði á áhrifin af ræðu hans var að hann tæki upp eina sjóferðabók og færi að rífa úr henni blaðsíðurnar til að leggja áherslu á orð sín.


Góður vinur minn er yfirstýrimaður á norsku skipi sem er statt við austanvert Miðjarðarhaf. Hann hefur verið í leyfi að undanförnu og hann þarf hugsanlega að fara með flugi til Ísrael til að komast um borð í skip sitt næstu dagana. Þá kemur babb í bátinn. Hvernig á hann að komast um borð? Ísraelsmenn hleypa ekki hverjum sem er um flugvelli sína og þaðan inn á hafnarsvæðin. Þótt vinur minn eigi íslenskt vegabréf sem er í fullu gildi, þá á hann enga löglega sjóferðabók og getur því þurft að fresta för sinni uns skipið kemur til einhverrar hafnar þar sem ekkert veður er gert útaf sjóferðabókum því það tekur enginn mark á íslenskum sjóferðabókum og allra síst hernaðarþjóðir eins og Ísrael.


Vegna þessa máls setti ég mig í samband við Hilmar Snorrason fyrir helgina og sagði hann mér af öðru dæmi frá því í sumar. Danskt skip var leigt til rannsóknarstarfa á hafssvæðinu norðan við
 Arkangelsk í norðurhluta Rússlands. Skipið kom til Arkangelsk og þar gat Íslendingurinn um borð einungis framvísað einskisnýtri íslenskri sjóferðabók auk löglegs vegabréfs. Yfirvöld í Arkangelsk tilkynntu þá skipstjóra skipsins að það yrði að yfirgefa rússneska landhelgi hið bráðasta með þennan stórhættulega mann og losa sig við hann áður en þeir fengju að koma til baka. Skipið hélt því til Kirkenes í Noregi þar sem Íslendingurinn var settur í land og annar maður kom um borð í staðinn.  Spurningin er hvort skaði dönsku útgerðarinnar verði til þess að þeir ráða aldrei aftur Íslendinga um borð til sín?

Þessi tvö dæmi eru ekkert einsdæmi. Margir íslenskir sjómenn sigla á skipum um allan heim hjá erlendum útgerðum. Þeir skipta hundruðum ef ekki þúsundum. Margir þeirra hafa lent í erfiðleikum vegna þess að íslenska sjóferðabókin er ólögleg. Þessu til viðbótar má nefna sjómenn hjá Eimskip og Samskip, en sjómenn hjá Samskip gætu lent í erfiðleikum vegna aukinna krafna um sjóferðabækur, en danskar og færeyskar reglur koma í veg fyrir að erlendir ríkisborgarar fái danskar eða færeyskar sjóferðabækur, en þau tvö skip Samskipa sem eru með íslenskum áhöfnum eru með heimahöfn í Færeyjum.


Þetta er allt að komast í lag fáum við að heyra. Þetta verður komið í lag um næstu mánaðarmót eða næstu áramót segja fulltrúar Innanríkisráðuneytisins og svo líða mánaðarmót og áramót og ekkert skeður.


Siglingaþjóðin Ísland er enn á miðaldastigi á alþjóðlegum mælikvarða. 0 ummæli:Skrifa ummæli