mánudagur, desember 10, 2012

10. desember 2012 - Jólalög


Stundum læt ég eins og að ég viti ekkert um tónlist, veit reyndar mjög lítið en jólalögin hafa þó ávallt átt sinn sess í tilfinningum mínum. Þegar ég horfi til baka í tíma verða ekki mörg jólalögin sem standa uppúr í minningunni, en auk jólasálmanna eru það helst Siggi á síðum buxum og Solla á bláum kjól með Hauki Mortens sem standa uppúr. Einhverju sinni gaf Dómkirkjukórinn út hljómplötu með jólasálmum og ég notaði tækifærið og flutti tónlistina yfir á snældu sem ég hafði með mér út á sjó og spilaði gjarnan í borðsalnum meðan jólamáltíðin var snædd einhversstaðar úti í hafi fjarri ástvinum. Þetta var hinsvegar tónlist af því tagi sem maður spilar aðeins á jólum og aldrei annars.

Haustið 1984 var ég að þvælast í Transatlantic siglingum á honum Laxfossi og við komum til Port Elizabeth í NJ í Bandaríkjunum. Ég skrapp í bæinn og náði í nýja snældu með jólalögum sungnum af þeim skötuhjúum Kenny Rogers og Dolly Parton. Þessi snælda bjargaði geðheilsunni þau jólin þar sem við vorum í brælu út af ströndum Kanada. Hún hefur margsinnis verið spiluð fyrir hver jól hjá mér eftir þetta og raunar alveg furðulegt að hún skuli enn vera í lagi eftir 28 ár. Að vísu eignaðist ég disk með sama efni fyrir fáeinum árum sem fær að hljóma mun oftar en snældan, en snældan er samt betri og munar þer mestu að með geisladiskaútgáfunni var Heims um ból fellt út og eitthvað guðlaust einsöngslag með Dollý Parton komið í staðinn. Síðar komu Borgardætur með sinn frábæra jóladisk og þetta tvennt fær að hljóma hjá mér í hvert sinn sem ég set disk undir geislann í desember. Ég heyri eitt og eitt gott jólalag auk þeirra sem áður er getið, en því miður er megnið af þeim jólalögum sem ég heyri slíkt rusl að ég kvíði því að heyra þau aftur. Þar má nefna jólalög eins og Jól alla daga og Hjólajól og eitt sem ég heyrði um daginn með einhverjum söngkvennakór og í textanum var sífellt tönnlast á að „jólin skella á“.

Má ég þá heldur fara með Skafta Ólafssyni í sleðaferð.

Sem gamall sjómaður er lagið Í friði og ró með hljómsveitinni Roðlaust og beinlaust samt eitt af mínum uppáhalds því það segir allt sem segja þarf um kostina við sjómennskuna og segir sögu sem verður að segja varlega opinberlega.


0 ummæli:







Skrifa ummæli