fimmtudagur, desember 27, 2012

27. desember 2012 - Hundrað milljónir

Hundrað milljónir eru miklir peningar. Ég væri mörg ár að safna hundrað milljónum þótt ég legði hverja einustu krónu fyrir á verðtryggðum bankareikningi. Hundrað milljónir gætu gert kraftaverk ef þær væru notaðar til mannúðarstarfa. Samt eru hundrað milljónir svo lítið fé í stórframkvæmdum.


Það var rætt um að reisa nýja og mannhelda girðingu utan um  fangelsið að Litla-Hrauni austur á Eyrarbakka í Árborgarhreppi. Girðingin átti að kosta 160 milljónir en fyrir þá peninga væri hægt að halda úti fleiri manns á vakt um girðinguna allan sólarhringinn í fleiri ár. Já, eða kaupa átta íbúðir í blokk af þeirri gerð sem ég hefi til umráða og telst í eigu minni.

Fyrir hundrað milljónir væri hægt að kaupa fimm íbúðir í blokk af þeirri gerð sem ég á heima í, átta nýja  gæðajeppa af þeirri gerð og ég keyri á eða tuttugu til þrjátíu smábíla. Þá má ekki gleyma ótölulegum fjölda flatskjáa eða tölva.

Ef mig langar til að bora eftir heitu vatni fyrir bæjarfélag úti á landi myndu hundrað milljónirnar duga skammt, myndu vart duga fyrir meiru en undirbúningskostnaði og í sjávarútvegi fengi ég þokkalega trillu fyrir peningana. Þá myndu hundrað milljónirnar varla duga fyrir meiru en teikningum að byggingu stórhýsis.

Ákveðið hefur verið að leggja fram hundrað milljónir til að breyta Perlunni svo hún henti fyrir náttúrugripasýningu. Hundrað milljónir! Er verið að gera grín að okkur? Bara girðingin utan um fangana á Litla-Hrauni kostar 160 milljónir. Nú á að smíða milligólf í Perluna fyrir verulega minni upphæð. Hundrað milljónir duga varla til að laga einangrunina  utan um hitaveitutankana svo  hún henti sýningunni, hvað þá breytingin öll.

Hvenær ætla valdamenn þjóðarinnar að læra að gera raunhæfar áætlanir þar sem ekki er verið að blekkja fólk? Upphæðin, hundrað milljónir í breytingarnar eru hreinn blekkingarleikur til að hefja verkið. Þegar framkvæmdin verður svo komin af stað og peningarnir búnir verður ekki hægt að hætta við og þá mun þurfa fimm hundruð milljónir til viðbótar til að halda áfram við verkið og einhverjar hundruðir milljóna að auki til ljúka verkinu.

Þótt hundrað milljónir séu miklir peningar fyrir fátækt fólk eru þeir smámunir í svona blekkingaleik sem nú á að stofna til svo hægt verði að koma náttúrugripasafni fyrir í hitaveitutönkunum í Perlunni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli