sunnudagur, desember 30, 2012

31. desember 2012 - Við áramót


Það þykir góður siður við áramót að horfa yfir farinn veg, læra af honum og reyna að gera betur næst. Ég hefi að sjálfsögðu reynt að gera svo í fjölda ára, en efndirnar vilja stundum fara á allt annan veg en ætla mætti. Reyndar var síðasta ár svo tíðindalítið hjá mér að það er lítið að læra og ég verð því að nota gamla reynslu og mistök til að læra af næsta ár.

Það var ákaflega fátt sem bar fyrir mig á síðasta ári. Ég fór þessar reglulegu gönguferðir tvisvar í viku ef vaktin hamlaði ekki för, reifst reyndar við nágranna í byrjun árs vegna snjómoksturs, en fljótlega náðist samkomulag á milli lóðafélaganna í neðri hluta Hraunbæjar svo málin leystust. Ég hætti svo í stjórn lóðafélagsins á aðalfundi í lok apríl og farið hefur fé betra.  Vafalaust eru nágrannar mínir enn að fagna.


Í febrúar tók ég við formennsku í Ættfræðifélaginu og er enn að naga mig í handarbökin fyrir að hafa tekist það verkefni á hendur. Ég hélt að það væri ekki mikið mál stjórna fundum og deila út verkefnum til strnarmanna, en það reyndist mikill misskilningur af minni hálfu. Heimasíðan komst þó í lag og tókst að halda uppi reglubundinni starfsemi en fátt annað. Það virðist sem að fólk með ættfræðiáhuga láti sér nægja Íslendingabók til að svala áhuga sínum og félögunum hélt áfram að fækka.


Eitthvað lítið fór fyrir pólitíkinni hjá mér. Ég mætti vissulega á fáeina félagsfundi í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík með sænskar kröfur um virkni félagsmanna að leiðarljósi og þar sem rukkað er um félagsgjöld, en fátt annað gerði ég á því sviði. Jú, eitthvað smávegis var ég til aðstoðar í flokksvalinu í haust, en fátt annað gerði ég markvert á því sviði. Kannski verður næsta ár meira spennandi.


Einu hjartans máli lauk á árinu, en það var frumvarpið um réttarstöðu transfólks sem varð að lögum 27. júní. Við samkomu af því tilefni í húsnæði Samtakanna 78 var mér færð dýrindis whiskýflaska sem ég fór með heim og drakk með bestu lyst, reyndar ekki sama kvöld, en mjög fljótlega. Þá var mér veitt mannréttindaviðurkenning Samtakanna 78 ásamt gullmerki samtakanna á opnunarhátíð Hinsegin daga í ágúst. Ekki var hægt að drekka þær viðurkenningar og því á ég hvorutveggja ennþá og á áberandi stað í stofunni  þar sem allir mega sjá.


Þegar kom fram á haustið og allar aukatekjuáætlanir höfðu brugðist ætlaði ég að sleppa því að mæta á  4. þing og aðalfund Transgender Europe sem haldið var í Dublin á Írlandi. Ónei, ekki tókst það. Sem fráfarandi skoðunarmaður reikninga í samtökunum þurfti ég að mæta og gera grein fyrir því af hverju ég neitaði að samþykkja reikninga samtakanna og vildi láta senda þá til löggilts endurskoðanda. Það kom ekki til af góðu því velta samtakanna hafði vaxið úr örfáum evrum á ári í 300.000 evrur á þessum fjórum árum frá því ég hætti í stjórninni og tók að mér að yfirfara reikningana. Enn eitt dæmið um það hve gott er að losna við mig úr stjórnum félaga, enda hætti ég sem skoðunarmaður reikninga á aðalfundinum.  Ég fór svo aftur til útlanda mánuði síðar, en þá á málþing um fordóma og einelti gagnvart transfólki á vinnustöðum sem haldið var í Hollandi. Ég hélt að það væri ekki mikið mál að fá styrk til slíkrar ferðar enda hefur einelti verið talsvert í umræðunni á Íslandi síðasta árið og sendi styrkbeiðnir í allar áttir. Ónei, einelti hefur aldrei verið hjá mér sögðu allir og ég þurfti að bera allan  kostnaðinn sjálf eins og venjulega. Reyndar viðurkenni ég að ég sótti ekki um styrk til umboðsaðila Philips á Íslandi en Philips verksmiðjurnar styrktu sjálft málþingið.


Um setu mína í Siglingaráði fer færri sögum, en einungis þrír fundir voru haldnir á árinu 2012. Á síðasta fundinum mátti loks eygja árangur af hjartans máli Hilmars Snorrasonar sem er útgáfa löglegra íslenskra sjóferðabóka, en það virtist ganga illa þar til málið var gert opinbert og komið á borð fjölmiðla sem gripu málið fegins hendi og gerðu sér mat úr því.


Eins og gefur að skilja varð lítið úr öðrum verkum hjá mér á árinu. Einungis ein löng gönguferð var farin á árinu og það var Selvogsgatan sem ég fór með einum vinnufélaga og vini hans. Reglubundnum gönguferðum um Elliðaárdalinn fór verulega fækkandi þegar leið á árið enda alltof mörgum stundum eytt í Ættfræðifélagið og önnur félagsmálaverkefni. Því kjaga ég nú í spikinu og veit alveg hvað ég þarf að gefa af nýársheitum á morgun.


Af öðrum málefnum er ekkert að frétta. Engin ný barnabörn fæddust á árinu. Einn móðurbróðir minn dó og því er einungis einn eftir af þeirri kynslóð frændfólks míns. Eitthvað var um veikindi en ég tók mér þó einungis einn dag í rúminu vegna ælupestar.

Ég lofa því að næsta ár verður betra.


0 ummæli:







Skrifa ummæli