föstudagur, desember 28, 2012

28. desember 2012 - Virk eða fölsk félagsaðild?


Árið 2005 tók ég þátt í stofnun samtaka úti í Evrópu. Fyrstu þrjú árin sat ég í stjórn og stjórnarfundirnir fóru í að byggja upp innviði samtakanna og ákveða hvernig standa skyldi að félagsaðild félagsgjöldum og hversu víðtækt samtökin skyldu starfa. Þau áttu enga peninga, einungis þessar örfáu evrur sem runnu inn í formi félagsgjalda og dugðu vart fyrir meiru en bankakostnaði. Allar ferðir sem ég þurfti að takast á hendur vegna starfa minna fyrir samtökin voru greiddar úr eigin vasa. Um svipað leyti og ég hætti í stjórninni og varð skoðunarmaður reikninga fyrir samtökin fóru peningar að streyma inn, meðlimum jafnt og aðildarfélögum fjölgaði verulega, en auk þess fengu samtökin styrki til starfseminnar frá ríkisstjórnum, Evrópusambandinu og mannréttindasamtökum um allan heim enda ná verkefni samtakanna um allan heim þótt þau séu enn miðuð við Evrópu í grunninn.

Þótt við reyndum að hafa áhrif á ríkisstjórnir um allan heim til hagsbóta fyrir transfólk voru aðalfundir og kosningar um innri málefni samtakanna þó áfram miðaðir við félagsgjöld. Til að fá að greiða atkvæði á aðalfundum samtakanna þurftu félagsmenn að vera skuldlausir og að hafa greitt félagsgjöld árins og sama gilti um aðildarfélögin. Þau þurftu að vera skuldlaus og hafa greitt árgjaldið. Á aðalfundi fáum við ekki atkvæðaseðla nema að hafa reitt fram árgjaldið.  Þetta breytir engu um að við vinnum til hagsbóta fyrir transfólk um allan heim, höldum skrá yfir umbætur í málefnum transfólks í öllum ríkjum og reynum að minna á mannréttindabrot gagnvart transfólki hvort heldur er í Rússlandi eða í Venezuela.

Ég er meðlimur í nokkrum öðrum félögum, verkalýðsfélaginu, Félagi frímerkjasafnara, Samtökum hernaðarandstæðinga, Ættfræðifélaginu, Amnesty International, Trans-Ísland og Samtökunum 78. Í öllum þessum félögum er gerð sú lýðræðislega krafa að greidd séu félagsgjöld. Félagsgjöldin veita mér rétt til að vera virkur félagi, taka þátt í stjórnarkjörum og öðru starfi félaganna, en þau leggja mér líka á herðar þær skyldur að hlýða samþykktum félagsins og að taka þátt í starfinu að svo miklu leyti sem mér er unnt, en umfram allt veita félagsgjöldin mér rétt til að taka þátt í stefnumótun félaganna.

Að vera félagi án félagsgjalda er fölsk félagsaðild. Þess vegna er ég einnig stoltur og greiðandi félagi í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík og þar með Samfylkingunni. Ég tek þátt í starfinu eins og mér er unnt og mun taka þátt í formannskjöri Samfylkingarinnar í janúar næstkomandi. Að sjálfsögðu á einnig að gera sömu kröfu til annarra virkra félaga í Samfylkingunni.


P.s. Til að gerast medlimur í Socialdemokraterna i Svíþjóð þarf að byrja á að greiða inngöngugjald sem er 100 sænskar krónur (2000 íslenskar krónur) og það er um leið fyrsta árs gjaldið, en síðan hækkar það í samræmi við gjöld viðkomandi svæðafélags, en það geta verið frá 150 krónum upp í 300 krónur á ári. (í Linköping 250 kr)0 ummæli:Skrifa ummæli