föstudagur, september 25, 2009

25. september 2009 - Höfði

Mér þótti skelfilegt að heyra að Höfði væri byrjaður að brenna í dag, en jafnframt mikill léttir að heyra að slökkvistarfið tókst giftusamlega.

Öfugt við margbreytt Hótel Valhöll sem var orðið að hálfgerðum bastarð eftir flutning og breytingar austur á Þingvöllum, þá naut Höfði sín vel og viðgerðir sem framkvæmdar voru á húsinu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar heppnuðust fullkomlega. Þá hefur húsinu verð sýnd tilhlýðileg virðing á undanförnum áratugum og er það vel.

Sjálf átti ég litlar sem engar minningar tengdar þessu húsi. Ég fæddist að vísu 150 metra frá Höfða og eyddi þar fyrstu árum ævinnar, en fæðingarstaðurinn er löngu horfinn án nokkurs saknaðar og búið að byggja banka á lóðinni. Það er kannski helsta óprýðin við Höfða, að sjá allar þessar Mammonshallir og Skýjaborgir í næsta nágrenni við þetta glæsilega hús sem á sér meiri sögu en öll önnur hús á Íslandi.


0 ummæli:Skrifa ummæli