mánudagur, september 28, 2009

28. september 2009 - EstoniaÞað eru liðin fimmtán ár og ég man það eins og það hefði gerst í gær. Ég var á næturvakt í orkuverinu þar sem ég vann í Stokkhólmi og rétt nýkomin frá ferð til Eystrasaltslandanna Eistlands og Lettlands, en þangað hafði ég farið ásamt góðum vinum.

Einhverntímann um miðja nótt, þegar ég hafði rétt lokið við pannrundan, þ.e. eftirlitsferð með þeim kötlum sem voru í gangi, fór ég upp í setustofu. Menn sátu þar og enginn sagði neitt. Sjónvarpið var í gangi og textinn sem rann yfir skjáinn minnti helst á eftirtexta eftir einhverja kvikmynd.

Eitthvað spennandi, spurði ég, en enginn svaraði. Ég fór að horfa á sjónvarpsskjáinn og sá að textinn var enginn eftirtexti kvikmyndar, heldur rammasta alvara. Ég settist með hinum og sagði ekki orð frekar. Það var verið að segja nýjustu fréttir af þessu hræðilega slysi þar sem 852 manneskjur fórust, versta slys í sögu Norðurlandanna.

Það er of langt mál að ætla sér að rekja þennan hræðilega atburð og minnast þess fólks sem fórst með skipinu. Þó get ég ekki látið hjá líða að rifja upp eitt smáatvik. Þegar listinn birtist með nöfnum þeirra sem fórust með Estonia, kannaðist ég lítillega við eina konu af finnskum ættum sem fórst með skipinu. Hún starfaði á lögreglustöðinni í Jakobsberg og hafði verið mér innanhandar í tveimur tilfellum þar sem ég þurfti að tilkynna innbrot í bíl og síðar stolinn bíl. Nokkrum vikum áður hafði ég hitt hana er ég þurfti að endurnýja vegabréfið mitt vegna ferðar minnar til Riga og Tallinn. Þá sagði hún mér frá ætlaðri fundarferð sem starfsfólk lögregluembættanna væri að fara með Estonia. Það reyndist vera hennar síðasta ferð í lífinu.

Ég er löngu búin að gleyma nafni nágrannakonu minnar, en minnist hennar þess í stað iðulega þegar ég heyri ferjuna Estonia nefnda.


0 ummæli:Skrifa ummæli