þriðjudagur, september 08, 2009

9. september 2009 - Skýrslan um vistheimili

Á þriðjudagsmorguninn var loksins gerð opinber áfangaskýrsla um vistheimili, að vísu ekki um þau vistheimili sem ég hafði kynni af, heldur frá Kumbaravogi, Bjargi og Heyrnleysingjaskólanum. Ég get að sjálfsögðu ekki metið þessar skýrslur, það verða þeir aðilar að gera sem standa að þeim og þekkja málin.

Eitt þykir mér þó aðfinnsluvert við birtingu áfangaskýrslunnar. Í fréttum af áfangaskýrslunni var ávallt talað um Kumbaravog eins og að þar hefði einvörðungu verið rekið eitt barnaheimili í gegnum tíðina. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Það var rekið barnaheimili á vegum Reykjavíkurborgar (Reykjavíkurbæjar) í Kumbaravogi frá því á fimmta áratugnum og til ársins 1957 er það flutti í Mosfellsdalinn, fyrst til bráðabirgða að Hlaðgerðarkoti og síðan í Reykjahlíð. Forstöðukona á Kumbaravogi á þessum tíma var Guðbjörg Árnadóttir hjúkrunarkona frá Narfakoti í Njarðvík, en meðal starfsfólks var ráðsmaðurinn Magnús Sigurðsson og starfsstúlkan Jóna Haraldsdóttir, bæði frá Stokkseyri. Guðbjörg fór á eftirlaun haustið 1961 og Magnús hætti 1962 og flutti til unnustu sinnar og sonar austur að Grafarbakka í Hrunamannahreppi þar sem hann gerðist garðyrkjubóndi, en Jóna starfaði áfram í Reykjahlíð til ársins 1970 er hún flutti norður á Akureyri ásamt yngri syni sínum, en eldri sonur hennar bjó þá þegar á Akureyri.

Með því að gera ekki greinarmun á þessum tveimur barnaheimilum á sama stað á sinnhvorum tímanum, er auðvelt að rugla saman þessum tveimur heimilum þótt vissulega hafi komið fram í fréttum að heimilið hafi verið rekið af einkaaðilum er ofbeldi gagnvart börnum átti sér stað á Kumbaravogi. Það ber og að geta þess að þau þrjú sem ég nefni hér og öll látin fyrir löngu, voru öll hið besta fólk og til mikillar fyrirmyndar í umgengni sinni við börn og unglinga.

Ég bíð í ofvæni eftir næstu áfangaskýrslu þar sem fjallað verður um barnaheimilið í Reykjahlíð, en þarf víst að bíða fram á mitt næsta ár eftir þeirri skýrslu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli