þriðjudagur, september 08, 2009

8. september 2009 - Málverkauppboð

Ég álpaðist á málverkauppboð á mánudagskvöldið. Það var ekki eins og að ég hefði verið dregin þangað, því ég hafði beðið eftir næsta uppboði síðan í vor og búin að kaupa list hjá Fold í millitíðinni.

Í þetta sinn tókst mér að fá Birnu með mér á uppboðið og komum við okkur fyrir aftarlega, á svipuðum slóðum og ég hefi reynt að sitja á fyrri uppboðum, hæfilega mikið til hlés, en samt nógu áberandi til að eftir mér yrði tekið frá uppboðspúltinu.

Uppboðið gekk hratt fyrir sig. Mynd sem ég hafði ekki fest áhuga við virtist ekki ætla að seljast og ég bauð í hana og fékk fyrir brotabrot af áætluðu matsverði. Risastór mynd sem ég hafði sömuleiðis ekki leitt hugann að, meðal annars vegna of hás matsverðs, lenti í eigu minni fyrir örlítið brot af matsverðinu og sömuleiðis gamalt og fallegt landslagsmálverk. Þegar hér var komið sögu, var útséð með eigulegasta gripinn á uppboðinu, en ég bauð samt en fékk ekki rissmynd eftir Kjarval, sennilega af einhverjum sveitunga hans austur á Borgarfirði eystra.

Nú sit ég hér heima með þrjú stór listaverk sem ég kem ekki fyrir með góðu móti í litlu íbúðinni minni nema með verulegum breytingum á skipulagi hennar.

En það tekst nú samt fyrr en síðar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli